Sleitulaus úrkoma í 36 tíma

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ágætlega hvasst og vel blautt er rétt lýsing á veðrinu sunnan- og vestanlands, að sögn Óla Þórs Árnasonar, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Víða hefur rignt mjög mikið í tæpan sólarhring og ekkert lát virðist ætla að verða á rigningunni næsta sólarhringinn.

„Á þessum tíma í fyrramálið, á milli 3 og 6, eða seinnipart nætur, dregur nokkuð mikið úr úrkomunni. Einna fyrst á Breiðafirði og sunnanverðum Vestfjörðum. Síðan tekur það Reykjanesið og færist yfir. Það styttir hins vegar ekki upp á Suðurlandi eða Suðausturlandi fyrr en seinna,“ segir Óli Þór.

Þorsteinn G. Gunnarsson,upplýsinga- og kynningarfulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að allt hafi verið með kyrrum kjörum hjá björgunarsveitum landsins í nótt og þær hafi ekki þurft að sinna neinum útköllum.

Óli Þór segir erfitt að segja til um það á þessari stundu hvort spáin hafi nákvæmlega gengið eftir því úrkomunni og rokinu er hvergi nærri lokið en mjög var varað við úrkomunni í gær.

Spáin hefur gengið fyllilega eftir

„Það er búið að rigna nánast sleitulaust í sólarhring,“ segir Óli Þór en spáð er sleitulausri rigningu þangað til í fyrramálið. „Það er mín tilfinning að þetta hafi gengið fyllilega eftir,“ segir Óli Þór og bendir á að árstíminn hafi skipt miklu varðandi þær viðvaranir sem gefnar voru út. Því mikið er af laufi sem lokar niðurföllum og hætta hafi verið á vatnstjóni ef ekki er vel gætt að. Það bætir jafnt og þétt í uppsöfnuðu úrkomuna.

Í viðvörun Veðurstofunnar í gær kom fram að viðbúið er að flóðahætta myndist bæði í litlum ám og lækjum sem og á stærri vatnasvæðum, t.d. í Hvítá í Árnessýslu, Hvítá og Norðurá í Borgarfirði. Jafnframt má búast við aukinni hættu á skriðuföllum á þessum slóðum.

Skjáskot af vefsíðunni Windy.

Aukin flóðahætta í kvöld og nótt

Að sögn Óla Þórs er flóðahættan meiri eftir því sem á líður því það taki stórar ár langan tíma að bólgna upp að einhverju marki því það tekur einfaldlega lengri tíma fyrir vatnið að renna í árnar og safnast upp, sérstaklega þegar komið er niður á láglendi en það sést væntanlega ekki fyrr en þegar líður á daginn. Hámarkið næst þar væntanlega ekki fyrr en í kvöld eða nótt því á meðan það rignir jafnmikið og raun ber vitni þá bætir bara í árnar.

Á Hellisheiði hefur rignt látlaust frá því 11 í gærmorgun og frá þeim tíma til miðnættis mældist meðalúrkoman 5 mm á klukkustund. Frá miðnætti hefur bætt í og er 7-8 mm á klst. Þannig að undanfarnar 20 klukkustundir hefur meðalúrkoman verið 6 mm á klukkustund.

„Það er ansi mikil úrkoma og það er ekkert að draga úr úrkomunni þó svo það lægi aðeins um tíma um hádegisbilið en síðan dregur vindinn upp aftur. Þannig að þessi úrkoma heldur áfram og á Hellisheiði má búast við því að úrkoman verði að meðaltali 5 mm á klukkustund í hálfan annan sólarhring. Það er óhemjumikið vatn sem er að falla og einhvers staðar þarf það að komast til sjávar,“ segir Óli Þór.

Höfuðborgarsvæðið í skjóli frá Reykjanesfjallgarðinum

Hann segir að íbúar á höfuðborgarsvæðinu búi aðeins betur að með því að vera í skjóli frá Reykjanesfjallgarðinum sem skýli þrátt fyrir að vera hvorki hár né mikill. Því sé minni vindur á höfuðborgarsvæðinu og úrkoma minni en annars hefði verið.

Snæfellsnesið, einkum sunnanvert nesið, hefur orðið verst úti í veðrinu, sunnanvert Reykjanesið, Barðaströndin og vestanverðum Vestfjörðum. Nú er að bæta í úrkomuna við Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul, áveðurs. Þetta fer upp Suðurlandið og inn á hálendið, segir Óli Þór en úrkoman fellur nánast öll sunnan jökla og yfir jöklum. 

Búist er við miklu vatnsveðri á öllu sunnan- og vestanverðu landinu í dag, miðvikudag og fyrri hluta morgundags, fimmtudags. Mest verður úrkomuákefðin í dag. Fólki er bent á að ganga frá niðurföllum og tryggja að vatn komist rétta leið að þeim.

Það borgar sig að hreinsa lauf úr niðurföllum í dag.
Það borgar sig að hreinsa lauf úr niðurföllum í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Sunnan og suðaustan 13-20 m/s og rigning og jafnvel mikil rigning allvíða en hægari og þurrt að kalla norðaustan til. Lægir vestast um tíma um hádegi. Fer að draga úr vindi og úrkomu um landið vestanvert í nótt, en áfram rigning SA-til. Suðaustan 8-15 og lengst af þurrt fyrir norðan á morgun, en annars rigning. Hiti 5 til 12 stig.

Á fimmtudag:
Sunnan og suðaustan 13-20 m/s og mikil rigning en dregur úr úrkomu síðdegis. Suðaustan 8-15 og bjartviði norðan- og norðaustanlands. Hiti 8 til 13 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á föstudag:
Austan og suðaustan 5-13 m/s og léttir víða til, en skýjað og dálítil væta suðaustanlands og vestast. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Hæg breytileg átt og bjart með köflum en hiti 4 til 9 stig.

Á sunnudag:
Austlæg átt 5-13, hvassast syðst. Úrkoma suðaustan- og austanlands en þurrt norðan jökla og á Vestfjörðum. Heldur kólnandi.

Á mánudag:
Austanátt og dálítil væta, en lengst af þurrt fyrir norðan. Hiti 3 til 7 stig.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir vestlæga átt og víða þurrt. Hiti svipaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert