Kínversk skírteini duga hér – en íslensk ekki í Kína

Akstursskilyrði geta oft reynst erlendum ökumönnum erfið hér á landi. …
Akstursskilyrði geta oft reynst erlendum ökumönnum erfið hér á landi. Yfirvöld skoða ekki hvað felst í ökunámi eða réttindum íbúa annarra landa. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Alþjóðleg ökuskírteini sem gefin eru út í Kína eru viðurkennd ökuskírteini hér á landi en á sama tíma eru alþjóðleg skírteini gefin út á Íslandi og í öðrum vestrænum ríkjum ekki tekin gild í Kína. Yfirvöld hér á landi gera engar kröfur um færni erlendra ríkisborgara til að keyra hér ef undan er skilinn lágmarksaldur og ef um er að ræða atvinnuakstur.

Halldór Berg Harðarson hefur búið í Kína í 5 ár og segir í samtali við mbl.is að í Kína geti hann ekki keyrt bifreiðar, jafnvel þótt hann búi yfir alþjóðlegu ökuskírteini (svokallað IDP-skírteini). Þetta eigi einnig við um erlenda vini hans í landinu. Ástæðan er sú að Kína hefur aldrei samþykkt IDP-samkomulagið, en það er í gildi í rúmlega 200 löndum eða landsvæðum víða um heim.

Flest slys á hverja 100 þúsund gesti

Talsvert hefur verið rætt um slys á ferðamönnum í umferðinni hér á landi með fjölgun ferðamanna. Sérstaklega hefur verið horft til mikils fjölda slysa hjá Kínverjum, en samkvæmt tölum Samgöngustofu slösuðust fleiri Kínverjar í umferðinni hér í fyrra en ríkisborgarar nokkurs annars lands. Þegar horft var til fjölda slasaðra á hverja 100 þúsund gesti slösuðust um tvöfalt fleiri Kínverjar en íbúar annarra landa. Það sem af er þessu ári hafa slys á Kínverjum einnig verið tíð og með því hæsta hlutfallslega, þótt Ítalir séu þar efstir á lista.

mynd/Samgöngustofa

Í síðustu viku fjallaði Vísir um kínversk ökupróf og vitnaði meðal annars í bandaríska ríkisútvarpið þar sem fram kom að lítið mál gæti verið að fá ökuskírteini þar í landi án mikillar þjálfunar í sjálfum akstrinum. Í framhaldi er svo hægt að fá alþjóðlegt ökuskírteini gefið út í Kína, jafnvel þótt slíkt skírteini sé ekki tekið gilt af yfirvöldum þar.

Skoða ekki hvað felst í erlendum ökuréttindum

Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar, staðfestir í samtali við mbl.is að alþjóðleg ökuskírteini frá hvaða landi sem er séu samþykkt af leigunni og eftir því sem mbl.is kemst næst á það við flestar eða allar aðrar bílaleigur. Þá staðfestir Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, við mbl.is að alþjóðleg ökuskírteini óháð upprunalandi séu tekin gild sem ökuréttindi hér á landi. Það eigi við svo framarlega sem kröfur um lágmarksaldur séu uppfylltar og að ekki sé um akstur í atvinnuskyni að ræða.

Kröfur íslenskra yfirvalda eru að almennt ökuskírteini frá viðkomandi landi sé skiljanlegt hérlendum yfirvöldum, þ.e. sé með latnesku letri. Að öðrum kosti þarf einnig að fylgja alþjóðlegt ökuskírteini eða önnur staðfest þýðing á útgefna ökuskírteininu. Yfirvöld gera aftur á móti ekki athugun á því hvað felist í ökuréttindum viðkomandi lands.

Því geta kínverskir ríkisborgarar fengið útgefið alþjóðlegt ökuskírteini í heimalandinu sem yfirvöld taka sem gilt, en á sama tíma geta íslenskir ríkisborgarar ekki notfært sér sambærilegt skírteini sem gefið er út hér á landi til að keyra í Kína.

Hér á landi er alþjóðlegt ökuskírteini gefið út af sýslumanni og FÍB. Segir Þórhildur að fyrirkomulagið sé mismunandi milli landa og geti stjórnvöld falið viðurkenndum aðilum að sjá um útgáfuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert