6 milljarða lánið samþykkt milli funda

Frá héraðsdómi við upphaf aðalmeðferðar í Aurum málinu.
Frá héraðsdómi við upphaf aðalmeðferðar í Aurum málinu. mbl.is/Árni Sæberg

Millifundarsamþykktir voru algengar hjá áhættunefnd Glitnis þegar ákvarðanir voru teknar um lánveitingar, en nefndin tók ákvarðanir um stærri lán. Þá var venjan að slík samþykki kæmu með tölvupósti eftir að lánabeiðnir höfðu verið sendar á alla meðlimi áhættunefndarinnar. Þetta kom fram í framburði fyrrverandi lánastjóra og meðlima áhættunefndar bankans sem báru vitni í Aurum-málinu í héraðsdómi í dag. Í málinu hefur meðal annars verið skoðað hvort eitthvað sé öðruvísi við staðfestingu 6 milljarða láns sem ákært er fyrir en annarra lána sem samþykkt voru milli funda.

Mál gátu fengið flýtimeðferð milli funda

Samkvæmt framburði vitna í dag og því sem áður hefur komið fram í gögnum málsins gátu lánamál fengið flýtimeðferð í ákveðnum málum. „Þegar þörf krefur og eingöngu þegar ákvarðanir geta ekki beðið til næsta reglulega fundar er hægt að leita eftir flýtimeðferð með tölvuskeyti. Ákvörðunina skal staðfesta á næsta reglulega fundi,“ sagði í reglum nefndarinnar og var tekið fram að það þyrfti samþykki tveggja nefndarmanna . Þar af þyrfti annar aðilinn að vera frá fjármálasviði bankans eða forstjóri.

Í málinu er tekist á um lánveitingu sem veitt var til félagsins FS38 vegna kaupa á hlut í Aurum félaginu. Telur saksóknari verðmat fyrirtækisins hafa verið of hátt og þar af leiðandi lánveitinguna vegna málsins, en lánið var upp á 6 milljarða. Var ákvörðun um lánveitinguna tekin milli funda af Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra bankans og Magnúsi Arnari Arngrímssyni, fyrrverandi starfsmanni bankans. Þá er bókað í fundargerð að annar starfsmaður bankans, Rósant Már Torfason, hafi einnig samþykkt lánið, en í fyrri umferð þess í héraðsdómi fyrir tveimur og hálfu ári kom fram að Rósant teldi sig ekki hafa samþykkt lánið. Var lánveitingin daginn eftir skráð í fundargerð nefndarinnar.

Algengast að staðfesting kæmi í tölvupósti

Hver nefndarmaður þurfti almennt að samþykkja lánveitingar, en vitni staðfestu að tveir eða fleiri hefðu getað samþykkt undan fundar. Þá væri slíkt almennt ekki tekið upp aftur til umræðu á fundunum, enda teldust málin samþykkt.

Vitnin í morgun staðfestu að millifundarsamþykktir hefðu tíðkast hjá áhættunefndinni, en tóku öll fram að annað hvort hefði verið regla eða algengast að slíkt kæmi fram í tölvupósti. Þá hefði venjan verið að allir nefndarmenn fengju senda lánabeiðnina.

Í tilfelli lánveitingarinnar til FS38 liggur aftur á móti ekki fram nein staðfesting á samþykki fyrr en í bókun fundarins degi eftir að ákvörðunin var tekin af Lárusi, Magnúsi og mögulega Rósant.

Ósammála Lárusi um áhættutöku bankans

Meðal vitna í morgun var fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis, Alexander K. Guðmundsson, en hann hætti um mitt ár 2008 í bankanum, áður en lánið var veitt. Hann var m.a. spurður um samskipti sín við Lárus og ástæður þess að hann hætti. Sagði Alexander að komið hafi verið að endapunkti á samstarfi þeirra á milli. Það hafi meðal annars stafað af mismunandi skoðunum varðandi áhættutöku og útlán. Sagði hann að mögulega gæti hafa verið of mikil áhættutaka hjá bankanum á þessum tíma.

Sagði örla fyrir þrýstingi á Lárus

Saksóknari spurði Alexander út í áhrif Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem ákærður er í málinu, á ákvarðanatöku Lárusar „Fannst stundum örla á því að hann væri undir þrýstingi annarsstaðar frá,“ sagði Alexander en bætti við að hann hafi ekki orðið var við það með beinum hætti. Vísað var í yfirheyrslu hjá lögreglu þar sem Alexander sagði Lárus hafa haft sterka skoðun á málefnum sem tengdust félögunum Fons, Baugi og FL Group. „Mér fannst hann beita sér fyrir lánveitingum til þessa aðila já,“ sagði þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert