Framlög til hjúkrunarheimila aukin um 1,5 milljarð

Við undirritunina í dag.
Við undirritunina í dag.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra hafa staðfest rammasamning um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila í landinu sem undirritaður var í dag. Markmiðið er að tryggja góða þjónustu á heimilunum, auka gegnsæi greiðslna fyrir veitta þjónustu og bæta eftirlit. Framlög ríkisins til rekstrar hjúkrunarheimila verða aukin um 1,5 milljarð króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Þar segir að hingað til hafi flest hjúkrunarheimili landsins verið rekin fyrir daggjöld sem ríkið hefur greitt án samnings við heimilin. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað hvatt stjórnvöld til að gera samninga við öll hjúkrunarheimili þar sem fram komi skilgreining á verði þjónustunnar ásamt kröfum um magn hennar og gæði.

Samningurinn sem nú liggur fyrir er heildstæður rammasamningur sem Sjúkratryggingar Íslands standa að í samræmi við lög um sjúkratryggingar. Samningsaðilar eru Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta er stærsti samningur um heilbrigðisþjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert, en þess er vænst að alls 46 hjúkrunarheimili gerist aðilar að samningnum með samtals 2.516 hjúkrunar- og dvalarrými.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir stór framfaraskref stigið með því að skilgreina hvaða þjónusta skuli veitt fyrir daggjöldin. Það sé búið að vera baráttumál í áratugi að fá slíka skilgreiningu í gegn. Pétur Magnússon formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu tekur í sama streng: „Það er samfélagslega mikilvægt að gengið sé frá samningum um þessi mál. Þarna eru rúmlega 25 milljarðar sem renna út ríkissjóði til reksturs hjúkrunarheimila á hverju ári. Um svona háar fjárhæðir verða að vera samningar og þjónustan skilgreind,“ er haft eftir Halldóri.  

Á vef ráðuneytisins segir að með samningnum sé verið að styrkja grunnstoðir þjónustu hjúkrunarheimila með það að markmiði að tryggja íbúunum einstaklingsmiðaða, heildræna og örugga þjónustu. Einnig tryggi samningurinn aukið gegnsæi og samræmi í greiðslum fyrir veitta þjónustu og grundvöllur skapast fyrir betra eftirlit með henni.

Fyrir liggur að fjármunir til reksturs hjúkrunarheimilanna sem í hlut eiga verða auknir um 1,5 milljarða króna á ársgrundvelli á árunum 2016-2018. Þar af er gert ráð fyrir einum milljarði króna til að styrkja rekstrargrunn heimilanna, auknu fé til að koma til móts við aukna hjúkrunarþyngd heimilismanna á hjúkrunarheimilum og fjármunum til að auka vægi húsnæðisgjalds og samræma greiðslur, hvort sem um dvalar- eða hjúkrunarrými er að ræða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert