Frost hefur mælst á fáum stöðum í byggð núna í haust

Trausti Jónsson veðurfræðingur.
Trausti Jónsson veðurfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrsti vetrardagur er á morgun, laugardag. Haustið hefur verið afar milt og enn hefur frost aðeins mælst á fáum stöðum í byggð.

Trausti Jónsson veðurfræðingur bloggaði um haustið og tíndi til nokkrar staðreyndir. Fram kemur hjá Trausta að fyrsta frost haustsins hafi mælst á Akureyri 16. október. Lágmarksmælingar hafa verið gerðar þar síðan 1938 og var frostlausa skeiðið nú með allra lengsta móti, 158 dagar, og vantaði aðeins einn dag upp á að jafna metið, sem er frá 1972. Árið 1939 var tímabilið 157 dagar.

Enn hefur ekki mælst frost í haust í Reykjavík og hefur ekki mælst síðan 30. apríl, segir Trausti. Frostlaust hefur því verið í 173 daga samfellt. Langt er þó í metið frá 1939, en þá var frostlaust í Reykjavík í samfellt 201 dag, frysti ekki fyrr en 10. nóvember.

„Það lengdarmet verður varla slegið nú – því frostlaust yrði að vera allt til 17. nóvember, sem er nánast útilokað,“ bloggar Trausti. Samfelldar lágmarksmælingar í Reykjavík ná aftur til 1920 – fyrir þann tíma eru þær gloppóttar. Þó var hámark og lágmark mælt árið 1830 og var frostlaust í 188 daga samfellt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert