Halda eftir greiðslum til G&M

G&M kemur meðal annars að byggingu sjúkrahótels á lóð Landspítalans …
G&M kemur meðal annars að byggingu sjúkrahótels á lóð Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Styrmir Kári

Stór hluti starfsmanna á vegum G&M verktakafyrirtækisins mættu ekki til vinnu í gær vegna ógreiddra launa. Samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Bessasyni, formanni Eflingar, voru einhverjir mættir í dag en aðrir ekki. Segir hann viðræður við G&M og LNS Sögu enn standa yfir.

Frétt mbl.is: Gengu út vegna ógreiddra launa

G&M eru undirverktakar hjá LNS Sögu og segir Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri LNS Sögu, að samningarnir séu skýrir.

„Í okkar samningum við G&M stendur skýrt að það eigi að uppfylla öll íslensk lög og reglur. Þetta er auðvitað brot á því.“

Segir Ásgeir að verið sé að tala við G&M til að tryggja að mennirnir fái laun sín greidd.

„Svo hefur Efling stutt við strákana svo að þeir þekki rétt sinn; ég held að þetta sé í öruggum höndum.“

Ásgeir segir málið hafa komið upp frekar skyndilega en hann vonast til þess að það verði leyst í næstu viku.

„Við erum að þrýsta á G&M að standa við samninginn okkar og við munum halda eftir greiðslum þangað til það er gert.“ 

Hann segist ekki búast við langvarandi áhrifum á framkvæmdirnar. „En það er auðvitað leiðinlegt ef að fólk hefur ekki fengið launin sín,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert