Sund í frjálsíþróttahöll

Þorsteinn Halldórsson í bogfimi á Ólympíumótinu í Rio de Janeiro …
Þorsteinn Halldórsson í bogfimi á Ólympíumótinu í Rio de Janeiro í september sl.

Kynningardagur íþrótta fatlaðra á Íslandi, Paralympic-dagurinn, verður í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal á morgun klukkan 14-16 og eru allir boðnir velkomnir.

Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra hefur mælst til þess við sambönd innan hreyfingarinnar að þau kynni íþróttir og íþróttaiðkun fatlaðra með einhverjum hætti. Jón Björn Ólafsson, íþrótta- og þjónustustjóri hjá Íþróttasambandi fatlaðra, segir að Bretar hafi farið þá leið að bjóða afreksfólki víðs vegar að úr heiminum til Bretlands til þess að taka þátt í keppnum en Íþróttasamband fatlaðra hafi valið þá leið að vera með sérstakan kynningardag. „Með þessum hætti fá öll aðildarfélög Íþróttasambands fatlaðra tækifæri til þess að koma fram og kynna starfsemi sína auk þess sem íþróttanefndir sambandsins kynna íþróttir og útfærslu á þeim með það í huga að margar íþróttagreinar fatlaðra eru með öðruvísi aðlögun en í íþróttum ófatlaðra.“

Í annað sinn

Íþróttasamband fatlaðra á sér langa sögu en byrjað var með kynningardaginn í fyrra. Jón Björn segir að hann hafi heppnast sérlega vel og áfram verði haldið á sömu braut árlega. „Félögin og nefndirnar merktu það að þau og nýir iðkendur hefðu náð vel saman enda reynum við að skapa svona viðburðatilfinningu, að einstaklingar sem eru óákveðnir og stunda ekki íþróttir geti komið og kynnt sér hvað er í boði,“ segir hann. „Þetta var léttleikandi og skemmtilegur dagur og þannig viljum við hafa daginn. Við bjóðum öllum sem vilja að koma og líta inn, hvort sem um er að ræða fatlaða eða ófatlaða. Við notum tækifærið til þess að sýna starfsemi okkar, eins fjölbreytt og litskrúðug og hún er. Auðvitað er það áskorun að kynna grein eins og sund inni í frjálsíþróttahöll en við klórum okkur fram úr því eins og öðru.“

Liðlega 1.000 iðkendur eru skráðir í íþróttir fatlaðra hérlendis. Jón Björn bendir á að hér fæðast fimm til 15 börn með helftarlömun og aðrar hamlanir árlega og miklu máli skipti að kynna þeim íþróttastarfið. Það sé hámark endurhæfingarinnar þegar einstaklingur, sem býr með fötlun, taki ákvörðun um að stunda íþróttir og almenna lýðheilsu.

„Við erum sammála mörgum sérfræðingum um það að endurhæfingin getur ekki orðið mikið skilvirkari en það og við gerum okkur grein fyrir því að við verðum stöðugt að koma þeirri flóru, sem er í framboði hjá okkur, á framfæri,“ segir Jón Björn. „Við leggjum því mikið upp úr þessum kynningardegi og viljum með honum benda á mikilvægi þess að sem flestir stundi íþróttir og holla hreyfingu, þó ekki sé nema lýðheilsu eða almenningsíþróttir.“

Kynningardagurinn var fyrst í fyrra og var vel tekið.
Kynningardagurinn var fyrst í fyrra og var vel tekið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert