Fleiri fylgdarlaus börn hverfa

Bræður í Souda-flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Chios.
Bræður í Souda-flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Chios. AFP

Í það minnsta 10.000 börn fylgdarlaus börn á flótta hafa síðustu tvö árin horfið sporlaust í Evrópu samkvæmt tölum frá Europol, lögreglustofnun ESB. Meirihluti þessara barna hefur hingað til verið frá Afganistan, með drengi í meirihluta. Þetta er hins vegar að breytast þar sem stúlkum á flótta fer sífjölgandi. Þá fer aldur þessara barna sem eru að hverfa í Evrópu lækkandi, en börn sem hverfa í dag geta verið allt niður í fjögurra ára gömul, að því er fram kemur á BBC. Þessar tölur eru afar varlega áætlaðar og óttast er að þær séu langtum hærri.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að börnin eru ein síns liðs. Sum hafa orðið viðskila við foreldra sína í ringulreið stríðs og á flótta, önnur hafa verið send af stað af foreldrum sínum sem búa við vonlausar aðstæður, í von um að börnin finni betra líf. Þá hafa smyglarar aðskilið börn frá foreldrum sínum og reynt að kúga fé út úr foreldrunum.

En hvað verður um þessi börn sem eru að hverfa? Hvar enda þau? Um það er erfitt að segja og raunar er erfitt að vita nákvæmlega hversu mörg börn eru að týnast, þau geta verið fleiri því oft lýsir enginn eftir þeim. Aðaláhyggjuefnið er að börn sem komi ein síns liðs til Evrópu eða í fylgd smyglara séu að lenda í höndum misjafns fólks sem selur börnin í vændi og þrældóm. Meirihluta þessara barna hafa horfið á Ítalíu og í Þýskalandi og þá hafa mörg þeirra horfið sporlaust í Svíþjóð eða 1.000. Þetta eru hæstu tölur horfinna barna frá því í seinni heimsstyrjöld en á síðasta ári komu alls 90.000 fylgdarlaus börn á flótta til Evrópu.

Festast í flóttamannabúðum

Þrátt fyrir að lög eigi að vernda börn sem eru ein síns liðs á flótta skortir verulega upp á að þeim lögum sé fylgt, og í Grikklandi, Ítalíu og ótal fleiri ríkjum eiga börn mjög erfitt með að komast inn í flóttamannakerfið. Börn festast því í flóttamannabúðum og er stundum hreinlega vísað frá, en löng vist í flóttamannabúðum, sem oftast eru hættulegar, reynist börnunum óbærileg. Það versta er að víðast hvar fá börnin ekki hjálp og réttaraðstoð. Clara Smyth, írskur lögfræðingur og sérfræðingur í málefnum flóttamannabarna, hefur látið sig þessi mál varða og segir að sannanir séu fyrir því að lönd í Evrópu letji börn í að sækja um stöðu flóttamanns því yfirvöld í viðkomandi landi vilji að börnin fari eitthvert annað og reyni að komast hjá því að skrá börnin.

Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um það að yfirvöld í því landi þar sem barn er fyrst skráð sem flóttamaður eigi að rannsaka hvort barnið eigi fjölskyldumeðlimi þar eða í einhverju öðru Evrópuríki. Ef svo er á að senda barnið strax til viðkomandi lands og aðstoða það við það að sækja um stöðu flóttamanns í gegnum réttarkerfið. Sum lönd veita börnunum þó enga aðstoð í því ferli að sögn Smyth og geta yfirheyrslur sem börnin lenda í reynst þeim afar erfiðar og nærgöngular, þar sem þau þurfa að fara aftur og aftur yfir það hvaðan þau koma og í hverju þau hafa lent. Barnshugurinn er þannig að þau geta lokað fyrir erfiða reynslu og því eiga þau erfiðara með það en fullorðnir að segja frá í línulegri röð því sem þau hafa lent í, sem getur orðið til þess að frásögn þeirra er strax dregin í efa. 

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins 23.október 2016.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins 23.október 2016.

Bið sem reynist óbærileg

Breski Rauði krossinn birti skýrslu í síðustu viku þar sem fram kom að brotalamir væru á öllum stigum flóttamannakerfisins þar í landi við að hleypa börnum þangað inn í landið frá Frakklandi sem ættu þó rétt á því vegna tengsla við ættingja þar í landi. Það tæki að meðaltali 10-11 mánuði fyrir barn sem ætti ættingja í Bretlandi að komast þaðan frá Frakklandi, en um þessar mundir er verið að jafna svokallaðar Jungle-flóttamannabúðir, skammt fyrir utan Calais, við jörðu vegna óviðunandi aðstæðna þar. Hversu hægt það gengur segir innanríkisráðherra Bretlands að standi á Frökkum en Frakkar segja Breta eiga sökina. Nokkur börn hafa dáið eftir bið sem reyndist þeim óbærileg, við það að reyna að komast sjálf yfir Ermarsund. Enn stendur þó sú spurning hvað verður um fylgdarlausu börnin sem eiga ekki ættingja í Bretlandi, en góðgerðarsamtökin Læknar heimsins, sem hafa unnið í Calais-flóttamannabúðum frá 2003, segja að engar ráðagerðir séu um hvað gera eigi fyrir þau börn sem séu ekki á leiðinni yfir Ermarsund.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert