Halda í heiðri góðar hefðir

Stórsveit Ólafs Þórs á æfingu Sitjandi frá vinstri: Ársæll Másson, …
Stórsveit Ólafs Þórs á æfingu Sitjandi frá vinstri: Ársæll Másson, Viðar Eðvarðsson og Lárus Halldór Grímsson. Standandi frá vinstri: Hermann Sæmundsson, Guðjón B. Hilmarsson, Ólafur Þór Þorsteinsson, Þórólfur Guðnason og Guðrún S. Grímsdóttir. Á myndina vantar Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur og Björn Hannesson. mbl.is/Golli

Slegið verður upp balli í anda dansleikjanna, sem voru haldnir fyrsta vetrardag í áratugi, í Iðnó í Reykjavík í kvöld. Stórsveit Ólafs Þórs leikur fyrir dansi og Hemmi Sæm og fylgitunglin hita upp fyrir stórsveitina auk þess sem háskólasveitin Barbari leikur nokkur lög.

„Tilgangurinn er að halda í heiðri þessa gömlu og góðu hefð og gleðja sjálfa okkur og aðra í leiðinni með því að rifja upp þessi fallegu, íslensku dægur- og danslög frá sjötta og sjöunda áratugnum,“ segir Hermann Sæmundsson, gítarleikari og einn skipuleggjanda viðburðarins.

„Stór hluti hópsins byrjaði á þessu 1. vetrardag í miðju hruninu 2008 og þetta er í sjötta sinn sem Stórsveit Ólafs Þórs treður upp undir þessu nafni,“ segir Hermann. Hann bætir við að fólk á miðjum aldri og eldra þekki vel þetta form og hafi áhuga á því að viðhalda því auk þess sem þetta sé kærkomið tækifæri fyrir gamla skólafélaga og kunningja að hittast. „Lög sem Haukur Mortens, Skapti Ólafs, Raggi Bjarna, Ingibjörg Þorbergs, Berti Möller og fleiri sungu svífa yfir vötnum og það er ekki oft sem slíkt gerist á skemmtistöðum borgarinnar,“ segir hann.

Út úr skúrnum

Svokölluð bílskúrsbönd eru fleiri en margan grunar og Hemmi Sæm og fylgitunglin er eitt þeirra. „Hópur manna á góðum aldri lætur drauminn rætast og æfir sig í bílskúrum borgarinnar hér og þar, en þessi bönd þurfa líka að komast út úr skúrnum,“ segir Hermann. Hann bendir á að slík bönd hafi fengið að spreyta sig í Iðnó undanfarin tvö ár á Menningarnótt og tilfellið sé að þar leynist margur snillingurinn. „Þeir þurfa bara svið og áhorfendur til þess að fullkomna drauminn.“

Hemmi Sæm og fylgitunglin flytur einkum lög frá því fyrir eða um 1970, til dæmis lög sem Dátar og Lúdó og Stefán gerðu fræg. Barbari, rakarastofukvartett fjögurra ungra háskólanema, sem sigraði m.a. í söngkeppni MR, treður einnig upp og endurspeglar lagavalið fjölbreyttan tónlistarsmekk meðlima.

Hermann segir að hugsunin sé fyrst og fremst að skemmta sér og öðrum án þess að það þurfi að kosta mikið, en húsið verður opnað kl. 21, miðar verða seldir við innganginn og kosta 1.000 krónur, gleðistund verður til kl. 22 og þá byrjar upphitunarbandið að spila en stórsveitin stígur á svið kl. 23. „Þetta er gamaldags vettvangur og ánægjuleg samkoma,“ segir Hermann.

Valinn maður í hverju rúmi

Í stórsveitinni eru söngvarinn Ólafur Þór Þorsteinsson, Viðar Eðvarðsson saxófónleikari, Lárus Halldór Grímsson píanó- og hljómborðsleikari, Ársæll Másson rafgítarleikari, Þórólfur Guðnason bassaleikari, Guðjón B. Hilmarsson trommuleikari, Hermann Sæmundsson kassagítarleikari, Björn Hannesson conga-trommuleikari og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir fiðluleikari og Guðrún Sesselja Grímsdóttir, sem syngja bakraddir.

Í bílskúrsbandinu eru Magnús Árni Skjöld Magnússon (söngur), Jakob Falur Garðarsson (söngur), Hermann Sæmundsson (kassagítar), Einar Sigurmundsson (trommur), Hrafnkell Ásólfur Proppé (bassi), Lárus Halldór Grímsson (píanó/hljómborð), Ársæll Másson (rafgítar) og Daníel Þ. Sigurðsson (trompet).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert