Shoplifter komin í tískuna

Hrafnhildur og sonur hennar Máni fyrir utan heimili þeirra í …
Hrafnhildur og sonur hennar Máni fyrir utan heimili þeirra í Brooklyn. Ásdís Ásgeirsdóttir

Listakonan fjölhæfa, Hrafnhildur Arnardóttir, öðru nafni Shoplifter, hefur hannað nýja tískulínu fyrir & Other Stories, dótturfyrirtæki H&M keðjunnar. Föt og fylgihlutir innblásnir af myndlist Hrafnhildar verða í búðum í febrúar á næsta ári.

Í pólska hverfinu Greenpoint í Brooklyn býr listakonan Hrafnhildur Arnardóttir, eða Shoplifter eins og hún kallar sig í listaheiminum. Verkin hennar eru litrík, glaðleg, frumleg og kómísk. Hrafnhildur vill ekki lita inn fyrir línur og fer alltaf út fyrir rammann. List hennar hefur stundum ratað inn í hönnunargeirann en tilkynnt var á fimmtudag um samstarf hennar við & Other Stories, tískukeðju undir H&M. Þar hefur Hrafnhildur skapað nýja línu fatnaðs og fylgihluta sem kemur í búðir í febrúar 2017.

Hrafnhildur hannaði nýja tískulínu fyrir & Other Stories og koma …
Hrafnhildur hannaði nýja tískulínu fyrir & Other Stories og koma fötin í búðir í febrúar 2017. Hér situr hún fyrir í anorak sem hún hannaði.

Hamingja að fá litadýrð í heilann

Á vinnustofu Hrafnhildar er mikil óreiða; hálfkláruð og fullkláruð listaverk eru út um öll gólf og upp um alla veggi, og þar má sjá ólík og litrík efni, plast og hár, liti og verkfæri, gínur, skúlptúra og teikningar. Kannski er eitthvað skipulag í óskipulaginu sem aðeins listamaðurinn kann skil á. Og það er greinilegt að litagleðin ríkir þarna og það liggur eitthvað ævintýralegt í loftinu. Enda skapar Hrafnhildur oft verk sem eru eins og af öðrum heimi.

Hvernig myndirðu lýsa þinni myndlist?
Ertu mjög litaglöð?

„Það er mikil leikgleði í henni og ég finn mikla hamingju í því að fá litadýrð í augun á mér og upp í heila. Það má segja að þetta sé litaþerapía,“ segir Hrafnhildur og hlær. „Ég hef alltaf sjálf haft gaman að því að klæða mig í alla liti og ég held það sé ekki til litur sem ég fíla ekki. Þannig að ég hef alveg gert brún, svört og hvít verk, „monochrome“ verk, en ég er í grunninn alveg rosalegur „maxímalisti“. Vil hafa allt ofskreytt, ofhlaðið, eins konar ægifegurð. Eitthvað sem verður kannski of ljótt og yfirþyrmandi en á sama tíma seiðandi og fallegt. Mér finnst gaman að vera með þessar mótsagnir; að kalla fram þessar tilfinningar sem eru í mótsögn í áhorfandanum. Fólk þarf þá að gera það upp við sig hvort því finnst verkið fallegt eða ljótt. Hvort það hefur smekk fyrir því eða ekki,“ segir Hrafnhildur.

Hefur daðrað við fatahönnun

Í heilt ár hefur Hrafnhildur unnið með & Other Stories og má sjá afraksturinn í verslunum í febrúar á næsta ári. „Þetta er búið að vera mjög spennandi ferli að búa til heila línu og sjá hana verða til. H&M stofnaði tvö dótturfyrirtæki, annað er Cos og hitt er & Other Stories. Stefnan hjá & Other Stories er að eiga í samstarfi við fjóra nýja hönnuði á ári en þau hafa aldrei unnið með myndlistarmanni áður,“ segir Hrafnhildur. „Þetta er hraðvaxandi tískubúð í heiminum en þeir eru komnir með þrjátíu verslanir m.a. í öllum helstu borgum Evrópu og í Ameríku í New York og bráðum þrjár búðir á næsta ári í Los Angeles. Það sér ekki fyrir endann á því,“ segir hún og útskýrir að fatalínan hjá dótturfyrirtækjunum sé sérhæfðari og vandaðri en gengur og gerist hjá H&M. „ Ég er mjög sátt við gæðin á vörunum í línunni minni og allur standard er til fyrirmyndar en á sama tíma verða vörurnar ekki neitt sérstaklega dýrar þegar þær koma í búðir. Þetta er allt í framleiðslu núna og verður vorlínan þeirra 2017,“ segir hún.

Derhúfa með loðnum broskalli er hluti af nýju línunni.
Derhúfa með loðnum broskalli er hluti af nýju línunni.

Fer út fyrir rammann

„Það kitlar mig að „lita út fyrir“. Það er ekkert nýtt undir sólinni að myndlistarmenn fari út í búningahönnun, hönnun á sviðsmyndum og fatahönnun. Það er gömul hefð. En það er einhver pressa á manni að halda þesssu aðskildu og mér finnst vera fordómar gagnvart því að listamenn fari út í hönnun, og það viðgengst ákveðið listasnobb og stjórnsemi hjá fólki hvað má og hvað má ekki innan skapandi greina. Fyrir mér er þetta bara spurning hvernig þú nýtir hæfileika þína á sem margbreytilegastan hátt eins og þér finnst inspirerandi, og að vinna á „commercial“ plani er það sem tengir myndlistina mína við popplist og það sem ég kýs að kalla „almenningu“. Mér finnst myndlist eiga gott heimili inni í galleríi eða safni en ég mér finnst ágætt að viðra að rekast á hana út á götu,“ segir Hrafnhildur. „Ég hef alltaf haft áhuga á að klæða mig skemmtilega og það veitir mér einhverja lífsgleði. Ég hef alltaf verið að búa til föt síðan ég var lítill krakki. Mamma var alltaf að sauma eitthvað bölvað vesen sem ég hafði útskýrt fyrir henni. Þannig að þetta er mér mjög náttúrulegt.“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Vinnustofa Hrafnhildar er troðfull af listaverkum og efni til listgerðar.
Vinnustofa Hrafnhildar er troðfull af listaverkum og efni til listgerðar. Ásdís Ásgeirsdóttir
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins 23.október 2016.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins 23.október 2016.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert