Vaxtaokrið áþján fyrir íslensk heimili

Ólafur Arnarson, nýr formaður Neytendasamtakanna telur áherslur sínar á afnám …
Ólafur Arnarson, nýr formaður Neytendasamtakanna telur áherslur sínar á afnám verðtryggingarinnar hafa ráðið miklu um kjör sitt. mbl.is/Árni Torfason

Ólafur Arnarson nýr formaður Neytendasamtakanna, segist telja áherslur sínar á afnám verðtryggingarinnar eina af ástæðum þess að hann hlaut yfirburða kosningu í formannsembættið á þingi samtakanna í dag. Ólafur hlaut 129 atkvæði, en þeir Teitur Atlason og Guðjón Sigurbjartsson hlutu 47 atkvæði hvor og Pálmey Gísladóttir átta atkvæði.

„Þessi sigur er stærri en ég átti von á og ég fékk meiri stuðning í kosningunum en ég hafði þorað að vona,“ sagði Ólafur sem hefur sl. fjögur ár setið í stjórn Neytendasamtakanna. Hann hafi lagt mikla áherslu á baráttuna gegn verðtryggingu og vaxtaokri í sinni stjórnarsetu og m.a. átt þátt í að  Neytendasamtökin tóku mjög skýra afstöðu gegn verðtryggingu á neytendalánum og þar með talið húsnæðislánum.

„Ég hef verið talsmaður þessa inni í samtökunum og ég hef grun um að þetta hafi ráðið ansi miklu. Þetta eru einhver stærstu neytendamálin - þessi gríðarlegi kostnaður. Vaxtaokrið hér er áþján fyrir íslenska neytendur og íslensk heimili.“

Hrunið sýndi hve skaðleg verðtryggingin er

Ólafur kveðst telja landsmenn nú hafa aukin skilning á verðtryggingunni og hve skaðleg hún geti verið. „Við sáum vel í hruninu hversu skaðleg verðtyggingin er, þegar lánin hækkuðu upp úr öllu valdi.“ Verðbólga hafi nú verið lág um langt skeið, sem sé vissulega gleðiefni en ástæðurnar séu  aðallega utanaðkomandi, m.a. heimsmarkaðsverð á olíu og höft krónunnar.

„Ég hef áhyggjur af því þegar við horfum á kjarasamninga og fleira hvað gerist þegar höftum verður aflétt, að þá muni verðbólga koma mjög  illa við íslenska neytendur,“ segir hann og kveður vexti í landinu aukinheldur vera hærri en þeir þyrftu að vera.

Ólafur kveðst hins vega ekki draga neinn dul á að hann hafi stundað skipulega kosningabaráttu eftir að hann tilkynnti um formannsframboð sitt og m.a. notað samfélagsmiðla á borð við Facebook í þeim tilgangi. „Það fór talsverð vinna í þessa kosningabaráttu. En eftir að ákvörðunin var tekinn þá ákvað ég að gefa það sem ég gat í þetta til að hafa sigur, því ég álít Neytendasamtökin vera einhver mikilvægustu samtök á Íslandi. Þetta eru frjáls samtök neytenda og ég held að ég geti haft mikið þar að segja í forystu.“

Neytendasamtökin ekki nógu sýnileg

Neytendasamtökin eru í dag að mörgu leyti í mjög góðu horfi að mati Ólafs, sem segir Jóhannes Gunnarsson, fráfarandi formann hafa unnið merkt starf og eiga heiðurinn að kvartana- og leiðbeiningaþjónustu, sem og leigjendaaðstoð sem sé þjónusta sem ekki beri endilega mikið á, en sé engu að síður notaður eru daglega til að leysa úr ágreiningsmálum.

„Það er hins vegar áhyggjuefni að Neytendasamtökin eru kannski ekki nógu sýnileg,“ segir hann og kveðst hafa hug á að nýta tæknina og samfélagsmiðla betur í þágu samtakanna. Fjölmiðlar séu vissulega mikilvægt tæki til upplýsingamiðlunar til að efla verð- og gæðavitund neytenda, en tæknina megi nýta betur. „Í dag eru nánast allir með snjallsíma og öflugasta og beittasta vopn neytandans er upplýsingin.“ Með því að nýta hana sé hægt að stuðla að aukinni verð- og gæðavitund hjá neytendum.

„Ég ætla að beita mér fyrir því að Neytendasamtökin láti þróa app fyrir félagsmenn þar sem neytendakannanir, sem bæði sem við látum framkvæmda sjálf og kannanir annarra t.d. ASÍ, verði gerðar aðgengilegar. Þessum upplýsingum vil ég koma í lófann á fólki þar sem það er hverju sinni,“ segir hann og kveðst með þessu móti vilja gera samtökin sýnilegri og aðgengilegri fyrir ungt fólk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert