Vill ekki að bærinn fái útsvarið

Auglýsingin þar sem ekki er óskað eftir Hafnfirðingi.
Auglýsingin þar sem ekki er óskað eftir Hafnfirðingi. Ljósmynd/Morgunblaðið

„Þetta á rætur að rækja til síðustu helgar. Þá auglýsti ég eftir skörpum teljara fyrir Hafnarfjarðarbæ eða til að þjálfa Hafnfirska embættismenn,“ seg­ir Örn Gunn­laugs­son, eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins Bind­ir og stál. Hann óskaði ekki eftir Hafnfirðingi til starfa í auglýsingu í Morgunblaðinu í dag.

Um síðustu helgi auglýsti Örn eftir „skörpum teljara“ fyrir Hafnarfjarðarbæ. Var það gert til að þjálfa embættismenn í talningu á gámum. Aug­lýs­ing­una má rekja til gjalds sem Hafn­ar­fjörður ákvað í árs­byrj­un að rukka; á fjórða tug þúsunda króna fyr­ir hvern gám sem stend­ur óhreyfður í tvo mánuði.

Frétt mbl.is: Auglýsir eftir talnaglöggum manni fyrir Hafnarfjarðarbæ

„Málið er það að ég er með rekstur á skipulögðu atvinnusvæði og bærinn ætlar að ganga á svig við lög og innheimta stöðugjöld á gámum. Samtök Iðnaðarins eru búin að senda þeim bréf út af þessu og benda á ólögmætið. Það er skrýtið að bærinn ætlar ekki að rukka gjöld ef þú ert með annað lausafé,“ segir Örn og bendir á að ekki eigi að rukka fyrir brettastæður, númerslausa bíla eða annað lausafé á lóðum.

„Ég mun bara borga þessi gámagjöld en legg mig þess í stað fram um að bærinn fái eins litlar tekjur af þeirri starfsemi sem ég rek og mögulegt er. Ef ég er með fólk í vinnu sem býr ekki í Hafnarfirði þá fær bærinn ekki útsvarið,“ bætir Örn við.

Ólaf­ur Ingi Tóm­as­son, formaður skipu­lags- og bygg­ing­ar­ráðs Hafn­ar­fjarðar, gaf í viðtali við Morgunblaðið í vikunni lítið fyrir gagnrýni Arnar. Sagði hann gjaldtöku bæjar- og sveitarfélaga vegna gáma á iðnaðarlóðum tíðkist alls staðar og Hafn­ar­fjarðarbær hafi horft til annarra sveit­ar­fé­laga, sem væru að gera ná­kvæm­lega það sama, þegar regl­ur voru sett­ar.

Frétt mbl.is: Yfir 800 gámar á iðnaðarsvæðum í Hafnarfirði

Örn er ekki sammála þessu, segir að örfá sveitarfélög geri þetta og talar um hroka bæjarstarfsmanna vegna málsins.

„Hrokinn í embættismannakerfinu hérna í Hafnarfirði er svo mikill að það er alveg sama þó ég sendi þeim erindi, því er ekki svarað. Þessir embættismenn gleyma því oft að þeir eru þjónar almennings, þeir eru ekki kóngar,“ segir Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert