143 milljónir renni í vinnudeilusjóð

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal tillagna sem teknar verða fyrir á 42. þingi Alþýðusambands Íslands er tillaga um aukin framlög í svokallaðan vinnudeilusjóð. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Þing ASÍ hefst á miðvikudag, en miðstjórn félagsins hefur samþykkt tillögu þess efnis að 143 milljónir af óráðstöfuðu eigin fé félagsins renni í vinnudeilusjóðinn, sem oft er kallaður verkfallssjóður.

Fyrir eru 212 milljónir í sjóðnum, þannig að ljóst er að ef tillagan verður samþykkt mun sjóðurinn stækka umtalsvert. Lagt er til að bætt verði í sjóðinn vegna óvissu sem fram undan sé í kjaramálum.

„Þetta er tillaga sem liggur fyrir þinginu okkar,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is. Hann kvaðst frekar vilja ræða tillöguna á þinginu og vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert