Hjálpar börnum að setja sig í spor hunda

Gagnkvæmur skilningur. Hulda og Ninja Margrét á góðri stund. Ferðafélag
Gagnkvæmur skilningur. Hulda og Ninja Margrét á góðri stund. Ferðafélag mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hulda Jónsdóttir Tölgyes er á lokaári í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík, þar sem hún hefur orðið margs vísari um mannlega hegðun og atferli. Í hjáverkum og sér til yndisauka hefur hún rannsakað sömu þætti í fari hunda og ekki síst samskipti barna og hunda.

Hugðarefninu fann hún farveg í nýútgefinni bók, Hekla skilur hundamál, sem Allie Doersch myndskreytti. Boðskapurinn er skýr; lærðu að skilja líkamstjáningu hunda og verða betri dýravinur.

„Þegar ég var lítil óskaði ég mér fyrir hvert einasta afmæli og hver jól að fá hund, en fékk alltaf hamstra,“ rifjar Hulda Jónsdóttir Tölgyes upp og brosir að minningunni. Hún erfir samt ekki við foreldra sína að hafa ekki orðið við óskum hennar. Hamstrarnir hafi verið fínir, enda hafi hún alltaf verið mikill dýravinur – allra dýra vinur.

Án þess að á önnur dýr sé hallað eiga hundar sér þó sérstakan stað í hjarta hennar. Atferli þeirra og hegðun og ekki síst samskipti hunda og barna hafa lengi verið henni hugleikin. Og nú hefur hún sent frá sér sína fyrstu bók, Hekla skilur hundamál, sem er ævintýrabók með fræðslugildi fyrir börn.

„Hugmyndin kviknaði fyrir tveimur árum þegar ég þurfti að kynna stjúpson minn, sem þá var þriggja ára, fyrir hundinum mínum og kenna honum að koma fram við hann af virðingu,“ segir Hulda. Hundurinn hennar er raunar tík að nafni Ninja Margrét. „Þýskur pinscher, og ég fékk hana 10 vikna gamla nánast um leið og ég fluttist úr foreldrahúsum,“ upplýsir hún og víkur að þætti Allie Doersch myndskreytis.

„Upphaflega leitaði ég til manns hennar, sem er þrívíddarteiknari og mikill listamaður eins og hún, en hann benti á að Allie væri betri kostur í verkefnið. Ég hefði ekki getað fengið betri listakonu, við smullum strax saman og höfðum svipaðar hugmyndir um myndræna útfærslu aukinheldur sem ég græddi eina vinkonu í leiðinni,“ segir Hulda og heldur áfram: „Ég var með gróflega mótaðar hugmyndir um boðskap sögunnar, en ekki sjálft ævintýrið. Svo teiknar hún bara svo töfrandi myndir. Mér fannst skipta miklu máli að Allie er mikill dýravinur, en hún á tvo ketti og hafði átt hund þegar hún var að alast upp í Denver í Bandaríkjunum. Við hittumst reglulega til að fara á hugarflug og vorum svo heppnar að fá frábæran ritstjóra hjá Forlaginu, sem leiddi okkur gegnum ferlið, gaf góð ráð þegar á þurfti að halda og þvíumlíkt.“

Atferli manna og dýra

Hulda er á lokaári í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík og kveðst hafa brennandi áhuga á náminu. „Mér til yndisauka les ég svo um allar rannsóknir um atferli og hegðun hunda, sem ég kem höndum yfir. Þekkingin sem ég hef aflað mér með slíkum lestri sem og námið í sálfræðinni leggur grunninn að sögunni og boðskap hennar. Markmiðið er að stuðla að gagnkvæmri virðingu barna og hunda og gera samskipti þeirra bæði ánægjuleg og örugg.“

Í sögunni er lesendum boðið í gönguför með stelpu og hundi, Heklu og Huga. Þau skilja hvort annað vegna þess að Hekla þekkir tungumál Huga, sem hann tjáir með líkamanum. Eins og nærri má geta lenda þau í ýmsum ævintýrum og þarf Hekla þá stundum að liðsinna Huga og gera börnum sem á vegi þeirra verða grein fyrir einu og öðru sem gæta þarf sérstaklega að þegar hundur á í hlut.

„Eins og í öllum samskiptum er mikilvægt að átta sig á og bera virðingu fyrir að aðrir upplifa heiminn á annan hátt en við sjálf, þeim líður öðruvísi og hafa ólíkar skoðanir og sýn á lífið. Þetta má að vissu leyti heimfæra á hunda. Munurinn er auðvitað sá að mennirnir hafa þekkingu á eigin hugsun og tilvist, hundar geta hvorki velt sér upp úr vandamálum né fortíðinni eða dvalið í óhamingju sinni og haft áhyggjur af framtíðinni. Þegar maður kemur heim og hundurinn flaðrar fagnandi upp um mann, hugsar hann ekki: „Ó, en ég var eitthvað svo asnalegur þegar þú komst heim í gær, best að gera sig ekki aftur að fífli,““ segir Hulda í gamni og alvöru.

Spurningunni hvort hundar verði afundnir við þá sem hafa farið illa með þá, svarar hún játandi. „Viðmótið sem þeir sýna byggist á reynslu. Þeir tengja ákveðið áreiti við eitthvað slæmt og finna fyrir vanlíðan í viðurvist viðkomandi. Ég kann hins vegar enga skýringu á hvers vegna þeim virðist stundum vera í nöp við fólk sem þeir hitta í fyrsta skipti,“ segir Hulda og bætir við að Ninja Margrét eigi að vísu til að verða svolítið skrýtin þegar hún finnur lykt af dýrum af fólki.

Ljúfi risinn

Hulda og Allie ákváðu að söguhetjan Hugi yrði af kyni sem heitir Stóri Dani, stundum kallað Gentle Giant, eða ljúfi risinn að gefnu tilefni. Skapgerðareinkennin réðu þó ekki fyrst og fremst valinu, heldur líka líkamsbyggingin og snöggur feldurinn. „Sumir hundar eru svo rosalega loðnir að varla sést í eyru, nef og skott og því er næsta ómögulegt að teikna mynd sem sýnir svipbrigði og líkamsburð eða – tjáningu. Við vildum líka vekja athygli á að stórir hundar geta verið alveg eins góðir og litlir hundar og oftast er óþarfi að óttast þá stærðarinnar vegna. Hugi er er í alla staði mjög þægilegur og frábær barnahundur eins og hann á kyn til,“ segir Hulda.

Henni finnst nauðsynlegt að auka skilning barna á því hvernig hundar tjá sig með líkamanum því börnum sé eðlislægt að gefa sér að hundurinn tjái sig með svipuðum hætti og þau. „Þess vegna geta þau misskilið látbragð hundsins, halda kannski að höfuðhneiging tákni samþykki, hann sé glaður og brosandi ef hann sýni tennurnar og þar fram eftir götunum. Hvort tveggja getur aftur á móti táknað aðrar tilfinningar eða geðhrif á hundamáli. Í bókinni leggjum við áherslu á að sumt þyki börnum skemmtilegt en hundum leiðinlegt og öfugt. Sumt hræðir börn, annað hunda, stundum bæði og þau hafa oft ánægju af því sama – eða ekki.“

Hulda og Allie hafa undanfarið lesið fyrir börn í leikskólum. Þeim finnist stórmerkilegt þegar þær segja þeim að hundar geti verið hræddir við börn. „Við hjálpum þeim að setja sig í spor hunds, sem hefur kannski aldrei hitt barn. Þótt sum börn séu logandi hrædd við hunda, eru þau yfirleitt fremur áhugasöm og forvitin. Þau spyrja margs og sýna samkennd, til dæmis gagnvart Ninju Margréti sem er blind á öðru auganu. Þegar ég útskýri að hundar noti nefið miklu meira en augun verður þeim ögn rórra.“

Til fyrirmyndar og eftirbreytni

Líkt og Ninja Margrét er fyrirmyndartík er Hugi til eftirbreytni í öllum sínum háttum eins og lesendur bókarinnar komast fljótlega að raun um. Hulda kveðst beita atferlismótun og þá aðallega jákvæðri styrkingu í uppeldinu. „Hundaþjálfari sem ég fékk til mín þegar hún var ennþá bara hvolpur opnaði fyrir mér nýja heima. Ég fór að skoða atferlisfræðina og þegar ég byrjaði í sálfræðinni sökkti ég mér æ dýpra í fræðin,“ segir Hulda og viðurkennir að hún beri gjarnan saman atferli manna og hunda.

Þótt það skjóti kannski skökku við vonast hún til að bókin verði ekki til þess að börn fari að suða í foreldrum sínum um hund í jólagjöf, eins og hún gerði forðum. „Það er stór ákvörðun að fá hund inn á heimilið og hana verður að taka að vel ígrunduðu máli. Þeir fullorðnu bera alltaf ábyrgð á samskiptum barns og hunds. Það er þeirra að tryggja öryggi beggja og kenna þeim að lifa í samlyndi.“

Ólafur Ísak skilur hundamál

Þegar Hulda og Þorsteinn V. Einarsson rugluðu saman reytum fyrir nokkrum árum, kom hún með tíkina sína, Ninju Margréti, inn í sambandið og hann með son sinn, Ólaf Ísak. Hulda segir þá feðga fljótlega hafa heillast af Ninju Margréti og hennar einstaka karakter.

„Sambúðin hefur blessast rosalega vel. Ólafur Ísak sér ekki sólina fyrir Ninju Margréti og þeim kemur einstaklega vel saman – enda lagði ég áherslu á að kenna honum að skilja líkamstjáningu hennar,“ segir hún.

Ólafur Ísak sér ekki sólina fyrir Ninju Margréti og þeim …
Ólafur Ísak sér ekki sólina fyrir Ninju Margréti og þeim kemur einstaklega vel saman.
Hulda, t.v., og Allie eru báðar miklir dýravinir og höfðu …
Hulda, t.v., og Allie eru báðar miklir dýravinir og höfðu svipaðar hugmyndir um myndræna útfærslu sögunnar um Heklu og Huga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Fyrirmyndartík. Hulda segir Ninju Margréti vera frábæran barnahund.
Fyrirmyndartík. Hulda segir Ninju Margréti vera frábæran barnahund. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Fyrirmyndartík. Hulda segir Ninju Margréti vera frábæran barnahund.
Fyrirmyndartík. Hulda segir Ninju Margréti vera frábæran barnahund. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert