Bjarga flóttamönnum úr sjávarháska

Ruby Hartbrich með barn í fanginu sem Sea-Watch bjargaði í …
Ruby Hartbrich með barn í fanginu sem Sea-Watch bjargaði í einni ferða skipsins. Ljósmynd/Sea-Watch

Íslendingar virðast ekki fróðir um málefni þeirra flóttamanna og hælisleitenda sem hætta lífi sínu með því að ferðast yfir Miðjarðarhafið á lélegum skipakosti í von um betra og öruggara líf í Evrópu. Þetta er mat Ruby Hartbrich, þýsks læknanema sem tekur virkan þátt í starfi Sea-Watch, samtaka sem eru með skip í siglingu á Miðjarðarhafi til að bjarga flóttamönnum úr sjávarháska.

Hartbrich var meðal þátttakenda í ráðstefnunni Björgun 2016 sem haldin var í Hörpu um síðustu helgi. Hún hefur tekið þátt í aðgerðum Sea-Watch á Miðjarðarhafinu þar sem skipverjar reyna að koma til bjargar flóttamönnum sem lenda í skipskaða á leið sinni til Ítalíu og eins flóttamönnum sem lentu í vanda á leið sinni yfir Jónahaf frá Tyrklandi til Grikklands.

 „Ég er læknanemi og tók þátt í minni fyrstu ferð sem hluti læknateymis Sea-Watch,“ segir Hartbricht, sem í dag er orðin fjölmiðlafulltrú hjá samtökunum.

Hafa bjargað 20.000 manns frá því í apríl

Samtökin Sea-Watch voru  stofnuð fyrir einu og hálfu ári sem viðbragð við þeim sívaxandi fjölda flóttamanna og hælisleitenda sem lætur lífið á ferð sinni yfir Miðjarðarhafið. Samtökin sniðu sér stakk eftir vexti og byrjuðu starf sitt með tæplega 100 ára gömlu skipi. „Við keyptum síðan stærra skip í vetur og höfum verið önnum kafinn frá því við komum því á flot,“ segir Ruby, en samtökin eru alfarið rekin með fjárframlögum frá almenningi og fyrirtækjum.

„Frá því í apríl á þessu ári höfum við átt þátt í að bjarga um 20.000 flóttamönnum. Margir bátar hafa farið í sjóinn á þessum tíma og yfir 3.000 manns hafa dáið.“

Frá því í apríl hefur Sea-Watch tekið þátt í að …
Frá því í apríl hefur Sea-Watch tekið þátt í að bjarga um 20.000 flóttamönnum. Ljósmynd/Sea-Watch

Hartbrich hefur farið í fjórar ferðir með Sea-Watch og segir þau fá mikil viðbrögð við starfi sínu. „Við komum að mörgum bátum sem hafa hvolfst og vitum að fólkið um borð í þeim hefði dáið ef við hefðum ekki komið þar að.“

Brotnaði í briminu fyrir utan Lesbos

Hún segir erfiðustu upplifun sína tengdu starfi Sea Watch hafa verið úti fyrir ströndum Lesbos í Grikklandi. „17. desember í fyrra hvolfdi viðarbáti og hann brotnaði í briminu aðeins nokkra kílómetra fyrir utan Lesbos og margir drukknuðu. Við urðum vitni að þessu þegar við reyndum að bjarga fólkinu sem var í bátnum. Þetta er örugglega erfiðasta minningin.“

 Hún segir marga vera orðna veikburða þegar þeim sé bjargað. Þá sé erfitt að horfa upp á þann mikla fjölda barna sem eru í bátunum, auk þess sem ekki hafi alltaf allir lifað ferðina af þegar þeim loks er bjargað. „Maður býr sig undir að sjá ýmislegt,“ segir hún.

Björgunaraðgerðir samtaka á borð við Sea-Watch eru að hennar mati þó engin lausn á flóttamannavandanum. „Það er bara verið að meðhöndla einkennin og við upplifum að starf okkar er í síauknum mæli fellt inn í kerfið. Við myndum vilja sjá ráðamenn Evrópusambandsins sjá um björgunaraðgerðir í meiri mæli en nú er eða koma á öruggum fólksflutningum, þannig að ekki væri þörf á okkur lengur. Í augnablikinu erum við þó alls ekki að sjá það gerast.“

Vita lítið um björgunaraðgerðirnar

Hartbrich gerir ekki ráð fyrir að fara fleiri ferðir með Sea-Watch í ár og segir ferðatímabili flóttafólks og hælisleitenda vera að ljúka, því ekki reyni margir að komast yfir Miðjarðarhafið yfir vetrarmánuðina.

Um 15 manns taka þátt í hverri ferð Sea-Watch, en samtökin eru nú með um 100 manns á lista hjá sér sem taka þátt í aðgerðunum. Engir Íslendingar hafa tekið þátt í aðgerðum Sea-Watch og segist Hartbirch hafa orðið vör við það í heimsókn sinni hér á landi að fólk viti lítið um björgurnaðgerðirnar. „Ég hef sérstaklega orðið vör við þetta hjá yngra fólkinu,“ segir hún.

„Ég hef vissulega bara verið hér í stuttan tíma en tilfinning mín er sú að þetta sé ekki jafn mikið í umræðunni hér á landi og í Grikklandi og Ítalíu, sem ég skil að hluta, af því að þetta kemur ekki við líf fólks hér með sama hætti og þar sem flóttamannastraumurinn er hvað mestur.“

sea-watch.org/en/donations

Hartbrich segir þátttakendur í leiðöngrum Sea-Watch þurfa að búa sig …
Hartbrich segir þátttakendur í leiðöngrum Sea-Watch þurfa að búa sig undir að sjá ýmislegt. Erfiðasta minningin í hennar huga var að sjá bát brotna í briminu úti fyrir Lesbos. Ljósmynd/Sea-Watch
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert