Ekki að skoða gamla flokkapólitík

Graf/París 1,5

Sveinn Atli Gunnarsson úr París 1,5 sem er hópur áhugafólks um loftslagsmál segir loftslagsrýni hópsins vera byggða á núverandi stefnu flokkanna. Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setti fram gagnrýni á loftslagsrýni hópsins þar sem hún sagði að verið væri að hampa einstökum flokkum en úthrópa aðra.

Frétt mbl.is – Þingkona ósátt við loftslagshóp

Sveinn Atli segir hópinn hafa sent tölvupóst á flokkana með spurningum en ekki hafi borist svör frá stjórnarflokkunum. Spurt var um sjö þætti sem höfðu mismikið vægi við einkunnagjöfina, þar á meðal afstöðu til olíuvinnslu á Drekasvæðinu, tölu- og tímasett markmið um samdrátt í losun, kolefnisgjald, endurheimt votlendis og skógrækt og tillögur um breytingar á innviðum. Einnig var litið til þess hvort flokkurinn hefði tekið loftslagsmál upp í aðdraganda kosninganna.

Frétt mbl.is - Telja þrjá flokka standast loftslagspróf

„Við erum að skoða núverandi stefnur flokkanna. Ekki gamla flokkapólitík eða annað sem við höfum í rauninni ekkert að gera við,“ segir Sveinn Atli.

Sveinn Atli Gunnarsson.
Sveinn Atli Gunnarsson. Ljósmynd/Aðsend

Einkunn fyrir opinbera stefnu flokkanna 

Hann segir það rétt hjá Sigríði að flokkarnir sem stóðu að því að hefja olíuvinnslu á sínum tíma þurfi að hafa það á samviskunni en það þýði þó ekki að núverandi opinber stefna flokkanna um að vilja ekki fara í olíuvinnslu sé ómarktæk.

„Við erum fyrst og fremst að gefa einkunn fyrir opinbera stefnu, ekki eitthvað sem er hugsanlega hægt að telja til marks um stefnuna. Við getum ekki lagt mat á það hvað flokkarnir eru að hugsa heldur einungis það sem stendur í stefnunum,“ segir Sveinn Atli og bætir við að stjórnarflokkunum sé í lófa lagið að skrifa niður stefnurnar sínar í stað þess að láta hópinn túlka þær út frá meintum áhuga flokksins.

Þá sagði Sigríður það áhugavert að hópurinn hefði sleppt því að spyrja flokkana út í súrnun hafsins, þar sem það væri eitt af stóru hagsmunamálum Íslands í þessum efnum. Sveinn Atli segir súrnun sjávar í raun vera inni í matinu enda sé ljóst að stefna um að minnka losun muni draga úr súrnun sjávar þar sem losun á koltvísýringi valdi súrnun sjávar. „Við erum mjög meðvituð um súrnun sjávar en ákváðum að hafa það óbeint inni í matinu.“

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilja koma loftslagsmálum á dagskrá sem fyrst

Í athugasemdum sínum segist Sigríður sjálf hafa fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda. Við því segir Sveinn Atli að erfitt sé að eltast við hvað einstaklingar innan flokksins séu búnir að vera að gera en það geti þó vissulega hækkað einkunn flokksins. „Við sendum þeim tölvupóst en fengum þó engin svör.“

Sveinn Atli segir hópinn París 1,5 fagna þeirri gagnrýni sem hann hafi fengið, þar sem hann vilji koma loftslagsmálum á dagskrá sem allra fyrst. „Við viljum að flokkarnir setji upp stefnu sem við getum lesið og skoðað. Það væri þá til marks um vönduð vinnubrögð innan flokkanna. Við báðum flokkana um upplýsingar um þessi mál en fengum þær ekki frá stjórnarflokkunum. Það má vissulega skoða þessi mál betur, en samkvæmt mati okkar hafa stjórnarflokkarnir ekki tekið þetta upp svo vel sé.“

Nánar um loftslagsgagnrýni Parísar 1,5 á stefnu stjórnmálaflokkanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert