„Þetta gera bara sálarlausir menn“

Bílaleigubíllinn er haugryðgaður og varla má koma við hann án …
Bílaleigubíllinn er haugryðgaður og varla má koma við hann án þess að eitthvað detti í sundur. Karl Viðar Pálsson treysti sér ekki í viðgerð. mbl.is/Birkir Fanndal

„Þetta er hámark ósvífninnar. Þetta gera bara sálarlausir menn,“ segir Karl Viðar Pálsson, sem rekur bílaverkstæði í Mývatnssveit. Komið var með nánast ónýtan bílaleigubíl til hans og beðið um viðgerð en hann treysti sér ekki til að taka hann inn á verkstæði sitt. Bíllinn verður væntanlega seldur í varahluti.

Framendinn að detta af

Karl var beðinn um að gera við bremsulausan bílaleigubíl. Þegar leigutakinn kom með bílinn morguninn eftir trúði Karl Viðar varla sínum eigin augum. Bíllinn er jeppi, yfir tuttugu ára gamall.

„Það er varla hægt að lýsa þessu. Bíllinn var haugryðgaður. Framendinn var að detta af honum og annað frambrettið að rifna upp. Rafgeymirinn var að fara niður úr hvalbaknum út af ryði. Svo var búið að setja límband yfir óþverrann inni í brettunum,“ segir Karl. Hann segist ekki hafa treyst sér til að setja bílinn á bílalyftu í verkstæði sínu vegna þess að hann óttaðist að hann myndi detta í sundur þegar honum yrði lyft.

Bílaleigubíllinn er haugryðgaður og varla má koma við hann án …
Bílaleigubíllinn er haugryðgaður og varla má koma við hann án þess að eitthvað detti í sundur. mbl.is/Birkir Fanndal

Leigutakinn, ungur ástralskur ljósmyndari, hafði tekið bílinn á leigu tveimur dögum fyrr. Karl hefur eftir honum að hann hafi gengið frá leigunni á netinu. Hann tók flugrútuna frá Keflavíkurflugvelli og á stoppistöð á leiðinni hitti hann ungan mann sem rétti honum lyklana, benti í áttina til bílsins og lét sig svo hverfa. Þetta var í myrkri og leigutakanum gafst ekki kostur á að skoða bílinn áður, eftir því sem hann sagði Karli.

Ekki með bílaleigutryggingu

Karl segir að Ástralinn hafi greitt 144 þúsund krónur fyrir nokkurra daga leigu og hann hafi hvorki haft kvittun né leigusamning, aðeins nafnið á manninum sem leigði honum bílinn. Bíllinn mun ekki hafa haft bílaleigutryggingu eins og skylt er.

Karl tilkynnti þetta til lögreglunnar á Húsavík og kom manninum í samband við bílaleigu á Húsavík svo hann gæti haldið áfram för sinni.

„Þetta er ekki forsvaranlegt. Málið snýr ekki aðeins að manninum sem leigði frá sér bíl með þessum hætti og í þessu ástandi heldur ekki síður að eftirlitinu,“ segir Karl. Hann bendir á að bíllinn hafi komist í gegnum skoðun á Selfossi í febrúar og sé með gilda skoðun fram á næsta ár. Vítavert sé að hleypa slíku ökutæki út á vegina.

Karl segist hafa verið farinn að vona að búið væri að stöðva útleigu á druslum. Þetta dæmi sýni að taka þurfti umræðuna á ný og viðeigandi eftirlitsaðilar þurfi að taka sig á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert