Samstaða og umhyggja

Fjölskylda Jóhannesar fremst t.v.: Halldóra Rún, Gísli Jóhann Sigurðsson, Ásdís …
Fjölskylda Jóhannesar fremst t.v.: Halldóra Rún, Gísli Jóhann Sigurðsson, Ásdís Hildur, Klara Sigrún Halldórsdóttir og Jóhannes Hilmar. Ljósmynd/Snorri Viðar

Íbúar í Grindavík ætla um helgina að synda maraþonsund í tvo sólarhringa til styrktar Jóhannesi Gíslasyni, sem er með mjög sjaldgæfan hrörnunarsjúkdóm. „Þetta er okkar leið til þess að sýna samstöðu og umhyggju,“ segir Magnús Már Jakobsson, þjálfari hjá sunddeild Ungmennafélags Grindavíkur.

Jóhannes er 16 ára. Fyrir átta árum dapraðist sjón hans mikið á skömmum tíma og í ljós kom að hann var með orkukornasjúkdóm (e. Mitochondrial disease). Til eru um 40-50 mismunandi þekkt afbrigði sjúkdómsins og er Jóhannes með afbrigði sem hefur ekki enn tekist að greina annars staðar í heiminum, svo vitað sé. Hann er mjög þrekskertur og er með innan við 10% sjón við allra bestu skilyrði. Hann fékk flogaveiki fyrir nokkrum árum og síðan alvarlega hjartabilun fyrir tveimur árum, en áður en sjúkdómurinn uppgötvaðist var hann hress og kátur lítill strákur.

Mikill samhugur

„Bæjarbúar þekkja Jóhannes af góðu einu, hann er mikill húmoristi og hvers manns hugljúfi,“ segir Magnús Már. „Sund er til dæmis almennt ekki í uppáhaldi hjá fótboltastrákum en okkar fótboltastrákar eru tilbúnir að synda fyrir Jóhannes.“

Þetta er í fjórða sinn sem félagar í sunddeild Grindavíkur synda styrktarsund. Í deildinni eru krakkar frá 5-18 ára, en Magnús Már segir að iðkendum í öðrum greinum hjá Ungmennafélagi Grindavíkur hafi verið boðið að taka þátt í sundinu og hafi allir tekið því vel. „Það eru allir tilbúnir að synda fyrir Jóhannes, jafnt innan félags sem utan.“

Sundið hefst klukkan 14 á föstudag og stendur til klukkan 14 á sunnudag. Magnús Már segir að í sunddeildinni sé lögð áhersla á mikilvægi þess að leggja sitt af mörkum í samfélaginu. „Við reynum að byggja upp samkennd, að fólk finni til með öðrum og hjálpi þeim sem eru hjálpar þurfi,“ segir hann.

Um áheitasund er að ræða og taka framlög einstaklinga og fyrirtækja mið af syntri vegalengd. „Allar ferðir eru samviskusamlega skráðar og styrkjendur greiða miðað við kílómetrafjölda,“ segir Magnús Már. Til nánari útskýringar segir hann að nái sundfólkið að synda 800 km, eða frá Grindavík til Egilsstaða, kosti það ákveðna upphæð, önnur upphæð sé fyrir sund til Ísafjarðar, Bolungarvíkur, Akureyrar eða Kirkjubæjarklausturs, svo dæmi séu tekin. „Ef við náum að synda til Víkur í Mýrdal en ekki til Klausturs verður að sjálfsögðu miðað við vegalengdina til Víkur,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert