Líkfundur við Selatanga

Þyrluáhöfn Gæslunnar sótti neyðarsendinn í fjöru austur af Hópsnesi
Þyrluáhöfn Gæslunnar sótti neyðarsendinn í fjöru austur af Hópsnesi mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Líkamsleifar fundust í gærmorgun í fjörunni við Selatanga skammt frá Grindavík, þetta staðfestir lögreglan í Reykjanesbæ. Brak af skútu fannst á sama svæði, en fréttavefur DV greindi fyrst frá líkfundunum.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í gær merki frá neyðarsendi frönsku seglskútunnar Red Hélol, sem saknað hefur verið frá í sumar. Þyrluáhöfn Gæslunnar fór á vettvang að sögn Svanhildar Sverrisdóttur, starfandi upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, og sótti neyðarsendinn í fjöru austur af Hópsnesi við Grindavík í gærmorgun.

Skipstjóri skútunnar, Joseph Le Goff, lagði einn síns liðs af stað úr höfn frá Porto í Portúgal þann 7. júlí síðastliðinn og var för hans heitið til Azoreyja. Ekkert hafði spurst til skútunnar þar til neyðarboð frá henni bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar snemma í gærmorgun.

Þá þegar var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang og fór hún í loftið um hálfsex um morguninn. Rétt fyrir klukkan sex fann áhöfn þyrlunnar neyðarsendinn og seig sigmaður þyrlunnar niður og sótti hann.

Engin önnur vegsummerki fundust þá á vettvangi og var því ákveðið að bíða birtingar með áframhaldandi leit og óskaði Landhelgisgæslan þá eftir aðstoð björgunarsveita á svæðinu til að ganga fjörur. DV hefur eftir forsvarsmanna björgunarsveitarinnar Þorbjarnar að líkamsleifar hafi fundist í fjörunni eftir um korters göngu.

Svanhildur segir þyrlu gæslunnar hafa verið við áframhaldandi eftirlit með suðurströndinni í dag, en áhöfnin hafi fundið nein frekari ummerki um skútuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert