Sultuslök í sveitinni

Herdís nýtir ekki aðeins berin í sultur heldur býr hún …
Herdís nýtir ekki aðeins berin í sultur heldur býr hún til bláberjalíkjör og stundum krækiberjalíkjör. mbl.is/Golli

Í haust tíndu hjónin Herdís Einarsdóttir og Birgir Ásgeirsson um 40 lítra af bláberjum, einnig krækiber og slatta af hrútaberjum, við sumarbústaðinn sinn í V-Húnavatnssýslu. Afurðirnar notar Herdís í sultur til heimabrúks og einnig líkjöra sem þau hjónin færa gjarnan vinum og vandamönnum í tækifærisgjafir.

Er eitthvað merkilegt við það að karlar búi til sultu og séu jafnvel annálaðir sultugerðarmenn? Hmm, kannski ekki. Og þó. Gæti alveg verið ef sá hinn sami er nýhættur prestskap og dundar sér við sultugerð í tómstundum. Og konur úti í bæ, sem vita sitt lítið af hvoru um mat og matargerð, hafa rómað hæfileika hans í þeim efnum í hástert.

Af framangreindum ástæðum sló ég á þráðinn til Birgis Ásgeirssonar, sem þar til í fyrra var prestur í Hallgrímskirkju og hafði áður þjónað nokkrum prestaköllum, verið sjúkrahúsprestur og prestur í Kaupmannahöfn svo fátt eitt sé talið. Sultuslakur fyrrverandi sóknarprestur, fannst mér geta orðið fín fyrirsögn. Nú skyldi hann spurður út í leyndardóma sultugerðar og um leið beðinn um að gauka einni uppskrift eða svo að lesendum blaðsins.

Eftir hefðbundna kynningu í símann hófst spjallið:

„Mér var bent á að þú værir annálaður sultugerðarmaður. Værir þú til í að spjalla svolítið við mig um leyndardóma sultugerðar?“

„Sultugerðarmaður ...?“

„Já, svo var mér sagt ... (vandræðaleg útskýring á aðdraganda erindisins, hvaðan ábendingin barst o.s.frv).

„Ég held að þú hafir ekki fengið fullkomnar upplýsingar því það er nú konan mín sem er í sultugerðinni.“

„Ó ... þú ert sumsé ekkert í þessu?“

„Ekki nema að ég tíni berin og borða sultuna af bestu lyst úr mörgum krukkum. Ég held að þú ættir bara að tala við konuna mína. Á ég ekki að gefa þér samband við hana?“

Hér er ég svolítið slegin út af laginu, fáránlegt væri auðvitað að afþakka og segja að forsendur viðtalsins væru brostnar því sultugerð karls væri miklu merkilegri en konu.

„Það er miklu sniðugra fyrir þig að tala við konuna mína,“ ítrekar Birgir og hláturinn kraumar í honum.

(Kemur vel á vondan). „Ha ... ? Jú, auðvitað. Takk. Hvað heitir hún?“

„Herdís Einarsdóttir, hún er höfundur sköpunarverksins. Augnablik.“

„Þetta er blaðamaður á Morgunblaðinu, hún vill tala við þig um sultur,“ heyrist í fjarska.

„Halló. Herdís hér.“

Og aftur útskýri ég að starfsstúlkur á hjúkrunarheimilinu Grund hafi bent kollega mínum á að Birgir sé sérlegur áhugamaður um sultugerð, farið fögrum orðum um gæði sultunnar – og okkur (mér og samstarfskonunni) hafi af þeim sökum þótt hann forvitnilegt viðtalsefni. En að upplýsingarnar séu raunar á misskilningi byggðar eins og Birgir hafi rétt í þessu upplýst.

Búbót. Birgir er duglegur að tína ber, sem Herdís sultar …
Búbót. Birgir er duglegur að tína ber, sem Herdís sultar í margar krukkur. mbl.is/Golli

Körlum alltaf eignaður heiðurinn

Herdís fer að skellihlæja. „Já, er þetta nú ekki alveg dæmigert, að körlunum sé alltaf eignaður heiðurinn af öllu – jafnvel sultu!“ segir hún og kveðst ráma í að Birgir hafi fyrir skemmstu fært forstöðukonunni á Grund sultukrukku.

„Grunar þig að kannski að hann hafi eignað sér heiðurinn af sultunni?“

„Nei, nei, þær hafa bara dregið þessa ályktun. En sulturnar mínar eru svo sem ekkert merkilegar. Ósköp venjulegar, ekki eins og hjá Sollu Eiríks sem er með allt mögulegt í sultunum sínum, kanil og döðlur og guð má vita hvað.“

„En lumar þú ekki á einhverri góðri uppskrift?

„Ekkert til að hampa, nema bara að ég reyni að nota minni sykur en gert var hér áður fyrr. Ég nota hrásykur og þá ekki nema 350 grömm á móti kílói af berjum. Ég held að konunum hafi bara þótt sultan svona góð af því að berin voru beint úr móunum hérna við Vesturhópsvatn. Þetta var ósköp venjuleg bláberjasulta,“ útskýrir Herdís – ennþá hlæjandi.

„Ætlarðu að skrifa um þetta?“ spyr hún svo steinhissa en leyfir mér góðfúslega að halda áfram að spyrja hana í þaula um sulturnar.

Herdís nýtir ekki aðeins berin í sultur heldur býr hún …
Herdís nýtir ekki aðeins berin í sultur heldur býr hún til bláberjalíkjör og stundum krækiberjalíkjör. mbl.is/Golli

Um 40 lítrar af bláberjum

Upp úr dúrnum kemur að þau hjónin tína berin við sumarbústað sinn í Vesturhópi í V-Húnavatnssýslu þar sem þau hafa dvalið lungann úr sumrinu árum saman. Herdís giskar á að þau hafi tínt um 40 lítra í sumar, enda hafi verið einstaklega góð spretta fyrir norðan. „Og svo bý ég til sultur og frysti líka berin til að hafa út á skyr allan ársins hring og/eða ég gríp í til að búa til meiri sultu yfir veturinn.“

„Gætir þú gefið uppskrift að bláberjasultunni þinni?“

„Eitt kíló af berjum, sem ég mer áður í sundur með töfrasprota, og sýð ásamt 350 grömmum af hrásykri í 12 til 15 mínútur.“

„Er þetta allt og sumt?“

„Já, þetta er nú ekki flókið. Þær á Grund hljóta bara að hafa verið svona hrifnar af því að sultan var svo splunkuný þegar þær fengu hana,“ segir Herdís og finnst greinilega ekki taka því að tala um – hvað þá að skrifað sé um sulturnar sínar. Enda sé ábyggilega víða hægt að nálgast fínni uppskriftir af nýstárlegum og ljúffengum sultum með alls konar framandi hráefni í bland.

„Hefur þú prófað slíkar uppskriftir eða kannski notað önnur ber en bláber í sultugerðina?“

„Já, svolítið, en mér finnst þessi einfalda uppskrift best. Svo hef ég líka prófað að gera sultu úr hrútaberjum, sem eru beisk á bragðið og ekki góð ein og sér og þar af leiðandi ekki mikið notuð í sultur. Hrútaberjasulta er hins vegar ljómandi góð með villibráð til dæmis.“

„Hvers vegna datt þér í hug að búa til sultu úr, að margra mati, óætum hrútaberjum?“

„Það er gamall siður í fjölskyldunni, mamma mín tíndi alltaf hrútaber hér í Vesturhópinu og bjó til sultu. Uppskriftin er eins og bláberjasultan, 350 grömm sykur á móti einu kílói af berjum, en þó bara soðið saman í 4 mínútur.“

Herdís býr til bláberjalíkjör og stundum krækiberjalíkjör.
Herdís býr til bláberjalíkjör og stundum krækiberjalíkjör. mbl.is/Golli

Sultur og líkjörar í tækifærisgjafir

Sultur Herdísar hafa víða farið, því þau hjónin færa gjarnan vinum og kunningjum krukku að gjöf við ýmis tækifæri. En Herdís nýtir ekki aðeins berin í sultur heldur býr hún til bláberjalíkjör og stundum krækiberjalíkjör. „Sáraeinfalt,“ segir hún: „1 lítri gin eða vodka, kíló af bláberjum og 500 grömm hrásykur. Allt sett í glerkrukkur og geymt á köldum stað í þrjá mánuði.“

„Gamall siður frá mömmu þinni kannski.“

„Nei, mamma gerði aldrei líkjöra. Ég hef hins vegar haft það fyrir sið á hverju hausti í mörg ár. Okkur finnst gaman að færa fólki hann sem smá jólaglaðning ásamt sultukrukku,“ segir Herdís og tekur enn og aftur fram að margir séu miklu frumlegri í að nýta berin en hún. Hennar sultur og líkkjörar séu ekkert merkileg.

Viðtalið hafði vegna misskilnings tekið óvænta stefnu og orðið að viðtali við konu en ekki karl. Ég er tilneydd til að viðurkenna að Birgir sneri svolítið á mig. Þegar öllu er á botninn hvolft er ekkert merkilegra þótt karl sulti en kona – já, eða prjóni og saumi ef því er að skipta. Eða hvað? Þeim hjónum er ábyggilega skemmt, þar sem þau dvöldu sultuslök í sveitinni í Vesturhópi þessa síðustu haustdaga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert