Tungumálakunnáttu Íslendinga hrakar

Háskóli Íslands býður upp á nám í fjölmörgum tungumálum, m.a. …
Háskóli Íslands býður upp á nám í fjölmörgum tungumálum, m.a. frönsku og spænsku. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á sama tíma og enskukunnátta íslenskra ungmenna hefur aukist, virðist kunnáttu þeirra í öðrum tungumálum hafa hrakað. Tungumál eru lykillinn að skilningi okkar á öðrum samfélögum og afar mikilvæg fyrir framtíð Íslands. Geir Sigurðsson, forseti deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, segir stöðu tungumálanáms og tungumálakunnáttu á Íslandi vera áhyggjuefni.

Í samtali við mbl.is segir Geir að stytting framhaldsskólanáms hafi haft mikil áhrif á tungumálanám, þó það hafi ekki verið hugsunin í upphafi. „Það var gert ráð fyrir því að tungumálin gætu haldið sér en framhaldsskólarnir höfðu svigrúm til að ákveða það sjálfir og í langflestum tilfellum þá hefur þetta gert það að verkum að það hefur verið skorið mikið niður í öllum tungumálum nema ensku.“

Segir Geir að niðurskurður á tungumálanámi í framhaldsskólum hafi bein áhrif í háskólann, þar sem gert er ráð fyrir ákveðinni forkunnáttu þegar fólk kemur í tungumálanám, sérstaklega þegar um ræðir tungumál sem eru hluti af námsskrá framhaldsskólanna, t.d. dönsku, spænsku, þýsku og frönsku. Geir segir líklegt að draga muni úr áhuga nemenda á tungumálanámi ef ekki verður í skorist. Hann segir háskólann vinna í að koma með mótvægisaðgerðir sem gera nemendum kleift að geta tekið stökkið milli framhaldsskóla og háskólanáms í erlendum tungumálum, til að mynda með fjarnámi á vefnum. Hann telur þó að ef fram heldur sem horfir muni háskólinn þurfa að byrja háskólanám í þessum tungumálum á grunnstigi, þar sem nemendur verða einfaldlega ekki í stakk búin til að hefja nám á sömu forsendum og áður.

Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum, er forseti deildar erlendra …
Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum, er forseti deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands Mynd/Geir Sigurðsson

Auk þeirra takmarkana sem stytting framhaldsnáms setur á háskólanám í erlendum tungumálum, segir Geir að áhrifanna muni einnig gæta í annarskonar námi á háskólastigi. Það leiði til þess að nemendur leiti einungis að heimildum í enskum og íslenskum ritum og því sé sjóndeildarhringurinn talsvert þröngur. Þá telur Geir líklegt að íslenskir háskólanemar leiti í auknum mæli til Bandaríkjanna og Bretlands í stað annarra landa, vegna þess að þar er nám og samfélag byggt upp á ensku. Þó um góða háskóla sé að ræða tapi íslenskt samfélag á að fólk stundi eingöngu nám í þessum menningarheimum.

Tungumálakunnátta á Íslandi

Geir segir að á síðastliðnum 20 árum hafi kunnátta íslenskra ungmenna í erlendum tungumálum farið dvínandi. „Enskan hefur styrkst en önnur tungumál sitja á hakanum.“ Telur Geir að stefnan hafi einkennst af ákveðnu stefnuleysi og kunnáttu Íslendinga í erlendum tungumálum hrakað mikið í leiðinni. Áhersluna á ensku telur Geir vera ágæta en að þörf á kunnáttu í öðrum tungumálum sé einnig mikil, bæði fyrir ákveðin störf og samfélagið í heild.

„Við höfum áhyggjur af þessari stöðu. Sérstaklega fyrir svona lítið land eins og ísland er mjög mikilvægt að það sé góð færni í tungumálum. Það er ekki þar með sagt að allir þurfti að tala þýsku, frönsku og spænsku en við þurfum að búa að talsverðum fjölda fólks sem hefur tök á því að geta lesið þessi samfélög. Tungumál eru dyrnar að hugsunarhætti. Maður les ekki samfélög nema að maður hafi tungumálið. Tungumálið er auðvitað bara lykillinn.“ 

Hvað er til ráða?

Geir segist engar töfralausnir hafa en að mikilvægt sé að fólk sé meðvitað um stöðuna. Auk þess niðurskurðar sem orðið hefur í tungumálakennslu segir Geir að tungumálanám sé ekki metið að verðleikum í íslensku samfélagi. Tungumálanemendur séu ítrekað spurðir af hverju þeir séu í þessu námi. Geir telur mikilvægt að vinna bug á þessu viðhorfi. „Okkur langar að reyna að stuðla að því að tungumálanám verði hafið til virðingar. Það verði litið á þetta sem mikilvægt fyrir þjóðina og framtíð hennar.“

Geir telur einnig mikilvægt að auka fjármagn í þessum námsgreinum. „Við erum með fámenna hópa í tungumálanáminu. Maður kennir tungumál ekki í stórum hópum en reiknilíkanið sem háskólinn byggir á grundvallast á stórum nemendahópum. Kennarar hjá okkur eru með fáa nemendur sem að þeir sinna mikið en fjármagni er útdeilt eftir fjölda nemenda. Ekki er tekið tillit til þess að í sumu námi þarf að vera með smærri hópa og einstaklingsmiðað nám. Kennarar fá því í raun ekki greitt fyrir alla þá vinnu sem þeir vinna. Þetta er langvarandi ástand.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert