Rannsaka hópmeðferðir fyrir feður

Feður glíma líka við tilfinningaleg vandamál í kjölfar barneigna.
Feður glíma líka við tilfinningaleg vandamál í kjölfar barneigna. Wikipedia

Rétt eins og mæður, geta feður glímt við tilfinningavandamál í kjölfar fæðingar barna þeirra. Dönsk rannsókn frá árinu 2006 sýndi til að mynda að feður geta einnig fengið fæðingarþunglyndi. Tilfinningaleg líðan feðra hefur þó ekki verið skoðuð til jafns við líðan mæðra en tveir nemar við Háskólann í Reykjavík hyggjast vinna rannsókn um meðferðarúrræði fyrir feður sem upplifa streitu-, kvíða- eða þunglyndiseinkenni.

Frétt mbl.is: Litið framhjá fæðingarþunglyndi karla

Eva Sjöfn Helgadóttir og Baldur Hannesson eru meistaranemar í klínískri sálfræði. Þau ætla að rannsaka árangur hópmeðferða með ósérhæfðri hugrænni atferlismeðferð (ÓHAM) við streitu-, kvíða- og þunglyndiseinkennum hjá karlmönnum sem eiga barn á fyrsta aldursári. Rannsóknin er meistaraverkefni þeirra frá Háskólanum í Reykjavík.

„Okkur fannst ekki hugað nógu vel að feðrum á Íslandi. Hvorki á meðgöngu né eftir meðgöngu,“ segir Eva, spurð um ástæður rannsóknarefnisins. Hún segir þau Baldur hafa skoðað fjölmargar fyrri rannsóknir en ekki getað fundið neitt þar sem hugræn atferlissmeðferð fyrir feður var tekin fyrir. „Við ákváðum að athuga þetta betur. Fyrri rannsóknir sýndu okkur að þetta væri örugglega nokkuð sem að væri þörf á.“

Eva segir að eftir því sem að þau hafi skoðað þetta betur hafi þeim fundist ótrúlegra að enginn hafi rannsakað þetta fyrr. 

Meistaranemarnir Baldur og Eva Sjöfn.
Meistaranemarnir Baldur og Eva Sjöfn. Mynd/Eva Sjöfn

Hún segir fyrri rannsóknir sýna að ef móðir barns glími við tilfinningavanda sé líklegra að faðirinn geri það líka. Þó geti feður líka upplifað tilfinningavanda þótt móðirin geri það ekki.

„Rannsóknir á mæðrum hafa sýnt að ef að einhver þunglyndis-, kvíða- eða stresseinkenni eru til staðar fyrir er líklegra að þau aukist eða komi aftur við fæðingu barns. [...] Að eignast barn er náttúrulega mjög mikill streituþáttur í lífi allra. Það getur oft verið enn erfiðara ef að maður er þegar að glíma við kvíða eða streitu.“ 

Eva og Baldur telja mjög mikilvægt að athuga líðan feðra á og eftir meðgöngu.

„Feður upplifa ýmislegt. Samfélagið er líka breytt og við krefjumst þess í dag að feður taki þátt í uppeldi og taki feðraorlof en við erum samt ekki að sinna þeim nógu vel. Allavega ekki tilfinningalegu hliðinni. Þeir eiga svolítið að vera stoð og stytta en það er kannski ekkert endilega alltaf best,“ segir Eva.

Eva og Baldur eru að eigin sögn spennt fyrir rannsókninni og er undirbúningurinn kominn langt á leið. Nú stendur yfir leit að þátttakendum og vonast þau eftir allt að 70 feðrum sem eignast hafa barn á síðasta árinu.

Eva segir að ekki verði valið sérstaklega úr hópi umsækjanda. „Við hvetjum alla sem að hafa einhvern áhuga til að koma á kynningarfund. Við hugsum þetta þannig að þetta er bara kynningartími og þar munum við segja frá því hvað við ætlum að gera, hver tilgangurinn sé.“ Hún ítrekar að engin skylda sé til að taka þátt en að allir sem vilji það fái meðferð.

Frekari upplýsingar um rannsóknina má finna á Facebook-síðunni Pabbahópur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert