Spæna upp hættulegar agnir úr malbiki

Nagladekk eru leyfileg í Reykjavík frá 1. nóvember til 15. …
Nagladekk eru leyfileg í Reykjavík frá 1. nóvember til 15. apríl, en borgaryfirvöld telja notkun þeirra þó ekki æskilega. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nagladekk spæna upp malbikið og þyrla upp svifryki hundraðfalt á við venjuleg vetrardekk. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg sem segir umhverfissjónarmið því eiga að ráða miklu þegar borgarbúar velja sér dekk. 1. nóvember er í næstu viku og því flestir farnir að huga að því að skipta yfir á vetrardekkin. Nagladekk eru leyfileg í Reykjavík frá 1. nóvember til 15. apríl, en notkun þeirra er ekki talin æskileg.

„Val á vetrardekkjum getur haft áhrif á á heilsu og lífsgæði fólks. Nagladekk skapa verulega hljóðmengun í borgarumhverfinu og þau valda loftmengun sem fer ekki vel í börn og fólk með viðkvæm öndunarfæri,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt norskum rannsóknum þá spæna nagladekk upp hættulegri agnir úr malbiki en venjuleg vetrardekk, auk þess sem þau eyðileggja malbikið og skapa þörf fyrir fjárfrekt viðhald.  „Nagladekk eiga sinn þátt í svifryksmengun í Reykjavík.“  Nýleg rannsókn Vegagerðarinnar á samsetningu svifryks sýni þó að hlutfall malbiks í svifryki hafi snarlækkað frá árinu 2003, og sé nú 17% í stað 55% áður. Ein helsta ástæða þessa  er talin sú að „á sama tíma lækkaði hlutfall bifreiða á nagladekkjum í Reykjavík úr 67% í 32%.“

Í fréttatilkynningunni er einnig tekið fram að hemlunarvegalengd bíla ráðist ekki aðeins af hjólbörðum, heldur einnig hraða og yfirborði götu. „Afar slæmt er að vera á slitnum dekkjum eða sumardekkjum við vetraraðstæður. Gott grip hjólbarða felst í dýpt mynsturs, þannig að vatn á veginum ýtist frá snertifletinum inn í skorurnar þannig að dekkið nái að snerta veginn þó að vatn eða snjór sé á honum.“ Meginregla í vetrarakstri sé þó alltaf sú að aka eftir aðstæðum og fara varlegar og aka hægar, ef það er snjór eða hálka á götum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert