Uppbyggingin má ekki við neinum töfum

Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH. mbl.is/Golli

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir það skjóta skökku við að einhverjir telji sig skynja þöggun varðandi uppbyggingarmál og staðsetningu nýs Landspítala. Segir hann að umræða hafi undanfarna daga sprottið upp í kringum kosningar, en umræðan hafi verið til staðar í 15 ár í öllum miðlum. Hann segir uppbygginguna risavaxið öryggismál og megi ekki við neinum töfum. Þetta kemur fram í vikupistli Páls á vefsíðu spítalans í dag.

Páll segir að nú hafi komið upp hugmyndir um uppskiptingu starfsemi spítalans. Þær telur hann sérstakar, enda hafi til framkvæmdanna verið stofnað til að sameina flókna keðju viðkvæmrar starfsemi á einum stað. „Bráðastarfsemin verður ekki skilin frá legudeildarstarfseminni, eins og öllum ætti að vera ljóst,“ segir Páll.

Þá leggur hann áherslu á að klára þurfi framkvæmdir sem fyrst og ekki megi tefja þær. „Ekki í 6 mánuði - ekki í 6 ár - og hvað þá lengur!“

Einn hluti uppbyggingarinnar er að koma fyrir sérhæfðum búnaði fyrir krabbameinsmeðferð og bygging aðstöðu fyrir jáeindaskanna. Framleiðslueining skannans kom í vikunni og segir Páll að gert sé ráð fyrir að meðferð sjúklinga í skannanum hefjist í síðasta lagi næsta haust. Með því verður „gríðarlegt framfaraskref stigið í heilbrigðisþjónustu á Íslandi,“ að sögn Páls. 

Í Facebook-færslunni sem fylgir fréttinni má sjá nánar frá byggingarframkvæmdunum.

Þá minnist Páll á rútuslysið á Þingvallavegi í vikunni og segir hann starfsfólk hafa unnið eins og best verður á kosið. Margt hafi þurft að ganga upp sem gekk eftir. „Það er okkur ómetanlegt að finna stuðning samfélagsins á þennan hátt og við erum þakklát fyrir það.  Ég vil líka þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum sem brugðust skjótt við og stóðu vaktina við þessar aðstæður. Við getum verið stolt af okkar framlagi.“ segir Páll í pistli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert