22 mál liggja fyrir á kirkjuþingi

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, ávarpar Kirkjuþing 2016.
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, ávarpar Kirkjuþing 2016. mbl.is/Golli

Kirkjuþing 2016 var sett í Grensáskirkju í gærmorgun. Að sögn þingforseta liggja 22 mál fyrir þinginu í ár, þar á meðal tillaga að nýjum þjóðkirkjulögum og tillaga um sóknarsamband. Vegna veikinda gat innanríkisráðherra ekki ávarpað þingið í ár.

Frétt mbl.is: Kirkjan sofnaði á verðinum

„Það er hugur í fólki,“ segir Magnús E. Kristjánsson, forseti Kirkjuþings, í samtali við mbl.is, en auk biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur, ávarpaði hann þingið við setninguna í gær. Stúlknakór Bústaðakirkju flutti nokkur lög við setninguna og þá er venjan að innanríkisráðherra ávarpi þingið en svo var ekki í ár vegna veikinda ráðherra.

„Ólöf Nordal var búin að þiggja það boð að koma og vera með okkur en vegna veikinda hennar gat ekki orðið af því þannig að Kirkjuþingið sendir henni bara batakveðjur og góðar óskir,“ segir Magnús.

Tillaga að nýjum þjóðkirkjulögum stærsta mál á dagskrá

24 mál voru lögð fyrir þingið en tvö þeirra dregin til baka og liggja því fyrir 22 mál á þinginu. Venju samkvæmt var skýrsla Kirkjuráðs fyrsta mál á dagskrá og var hún afgreidd á þinginu í gær. 

„Það eru til að mynda stór mál sem liggja fyrir núna eins og tillaga að nýjum þjóðkirkjulögum, sem er sennilega sú viðamesta og snertir flesta,“ útskýrir Magnús. „Það er verið að færa til samræmis og taka tillit til þess að við búum náttúrlega í nokkuð breyttu þjóðfélagi,“ segir Magnús, spurður um helstu nýmæli samkvæmt tillögunum en ríkjandi lög tóku gildi í ársbyrjun 1998.

Magnús E. Kristjánsson, forseti Kirkjuþings setti þingið í Grensáskirkju í …
Magnús E. Kristjánsson, forseti Kirkjuþings setti þingið í Grensáskirkju í gær. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þá verður rædd tillaga um stofnun sóknarsambands, en hugmyndin með stofnun slíks sambands er að sögn Magnúsar að stuðla að því að sóknir landsins stofni með sér samtök til þess að gæta hagsmuna sinna og leita leiða til að vinna að sínum málum. „Einnig er tilgangurinn með þessu að sóknirnar hafi rödd inn í samfélagið,“ segir Magnús. 

Gert er ráð fyrir að fyrri umræða klárist á mánudag en á þriðjudag fari fram nefndastörf, en þrjár fastanefndir starfa á kirkjuþingi. Seinni umræða verður svo á miðvikudag samkvæmt áætlun. Þá hefur skapast hefð fyrir því að þingfundum sé frestað þar til eftir áramót. „Það er gefið lengra hlé fyrir stærri mál sem þarf kannski að kynna og leita fleiri sjónarmiða í,“ segir Magnús. 

Stúlknakór Bústaðakirkju flutti nokkur lög við setninguna.
Stúlknakór Bústaðakirkju flutti nokkur lög við setninguna. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert