Sigurður hlýtur verðlaun Jónasar

Sigurður tekur á móti verðlaununum.
Sigurður tekur á móti verðlaununum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sigurður Pálsson ljóðskáld hlaut í dag verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og Ævar vísindamaður, Ævar Þór Benediktsson, hlaut sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu. Verðlaunin voru veitt í Hörpu.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar sagði um Sigurð: 

„Á löngum ferli hefur Sigurður fengist við tungumálið úr öllum áttum, af dirfsku og frumleika. Fyrir fyrstu bókina í endurminningaþríleik sínum, Minnisbók (2007), hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin. Sigurður er einnig eitt vinsælasta leikskáld þjóðarinnar en hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir handrit sitt að Utan gátta (2008). Þá hefur Sigurður alla tíð verið mikilvirkur þýðandi og eru þýðingar hans úr frönsku ómetanlegt innlegg í flóru íslenskra bókmennta.

En það er sama hvort Sigurður Pálsson skrifar skáldsögur, leikrit eða gengur upp Bankastræti: Hann er alltaf ljóðskáld. Ljóðabækur hans eru nú orðnar 16 talsins og heitir sú nýjasta Ljóð muna rödd,“ segir ennfremur um Sigurð. 

Sigurður fékk í verðlaun 700 þúsund krónur, Íslensku teiknibókina og skrautritað verðlaunaskjal.

Ævar vísindamaður.
Ævar vísindamaður. mbl.is/Ófeigur

„Mikilvæg hvatning til eflingar lesskilnings“

Ævar Þór Benediktsson (Ævar vísindamaður) er landsþekktur fyrir hugsjónastarf í þágu barna og unglinga, t.d. vísindaþætti í útvarpi og sjónvarpi og lestrarátak í skólum. Þannig er hvatning til skapandi hugsunar og bóklesturs áberandi þáttur í starfi Ævars Þórs. Lestrarátak Ævars er mikilvæg hvatning til eflingar lesskilnings grunnskólanemenda. Þennan þátt í starfi hans má tengja útgefnum verkum hans sjálfs, t.d. bókunum Þín eigin þjóðsaga og Þín eigin goðsaga, þar sem farnar eru óhefðbundnar leiðir til að efla sköpunargleði barna og styrkja tilfinningu þeirra fyrir máli og stíl.

Það er samdóma álit nefndarinnar að Ævar Þór Benediktsson hafi unnið afar mikilvægt starf í þágu móðurmálsins og skapandi hugsunar meðal barna og unglinga. 

Þeir voru hreyknir þeir 57 reyk­vísk­u grunn­skóla­nem­end­ur sem tóku við Ís­lensku­verðlaunum unga fólks­ins í bók­mennta­borg­inni Reykja­vík í dag. Vernd­ari verðlaun­anna, frú Vig­dís Finn­boga­dótt­ir, af­henti verðlaun­in.

57 börn fengu Íslenskuverðlaun unga fólksins.
57 börn fengu Íslenskuverðlaun unga fólksins. mbl.is/Ófeigur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert