50-150 íbúðir fyrir stærri fjölskyldur í Árbæ

Lóðirnar eru milli Hraunbæjar og Bæjarháls, en Tunguháls þverar lóðirnar. …
Lóðirnar eru milli Hraunbæjar og Bæjarháls, en Tunguháls þverar lóðirnar. Gert er ráð fyrir að þarna verði 50-150 lóðir. Mynd/mbl.is

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að auglýsa breytingu á aðal- og deiliskipulagi vegna áformaðrar uppbyggingar við Hraunbæ í Árbæ, en þar á að reisa íbúðir þar sem áhersla er lögð á stórar íbúðir fyrir stærri fjölskyldur. Um er að ræða tvær lóðir sem afmarkast af Hraunbæ og Bæjarhálsi, en Tunguháls liggur á milli lóðanna. Er það 2,3 hektarar að stærð. Samkvæmt auglýsingunni er áformað að reisa 50-150 íbúðir á lóðunum.

Svæðið hefur hingað til verið flokkað sem opið svæði og þarf því að gera aðalskipulagsbreytingu til að hægt sé að breyta því í íbúðasvæði. Á lóðunum standa aspir sem þar var plantað, en að öðru leyti er helst um að ræða grasbletti. Hafa þeir meðal annars verið notaðir sem boltavellir af Fylki.

Í deiliskipulaginu kemur fram að markmið sé að uppbyggingin taki tillit til byggðarmynsturs í aðliggjandi byggð og að húsin verði 3-5 hæða, en geti farið hærra á einstaka stað. Þá er gert ráð fyrir að samnýting verði meðal húsanna, meðal annars með bílakjöllurum, í tengslum við sorphirslu, og yfirbyggðum hjólaskýlum.

Gert er ráð fyrir að deiliskipulagstillagan verði kynnt fyrir lóðarhöfum og íbúum í apríl eða maí á næsta ári, en skipulagsferlið gæti svo klárast á seinni hluta ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert