Ljósaganga fyrir konur á flótta

Mæðgurnar Maryam Raísi og Torpikey Farrash hafa verið á flótta …
Mæðgurnar Maryam Raísi og Torpikey Farrash hafa verið á flótta sl. 15 ár. Maryam leiddi gönguna í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljósaganga UN Women undir yfirskriftinni Konur á flótta, fór fram nú síðdegis á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi hér á landi, sem UN Women stendur stendur fyrir ásamt öðrum félagasamtökum.

Tónlistarhúsið Harpa var lýst upp í appelsínugulum lit líkt og fleiri byggingar víða um heim, en appelsínuguli liturinn er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.

Í farabroddi ljósagöngunnar í ár var Maryam Raísi, sem ásamt móður sinni, Torpikey Farrash, hefur verið á flótta sl. 15 ár. Maryam flutti stutta hugvekju í upphaf göngunnar, en þegar hún var fjögurra ára gömul tóku talíbanar völdin í Afganistan og neyddust mæðgurnar þá til að flýja frá Kabúl. Allar götur síðan hafa þær verið á flótta og flakkað milli Írans og Afganistan.

Þegar stríðsherra í Afganistan ætlaði að taka sér Maryam sem konu flúðu mæðgurnar til Evrópu og síðar til Svíþjóðar eftir langt og strangt ferðalag. Eftir þriggja ára dvöl í Svíþjóð var þeim neitað um hæli þar og héldu þær þá til Íslands þar sem þeim var neitað um hæli eftir þriggja mánaða dvöl.  

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra var meðal þeirra sem tóku þátt í …
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra var meðal þeirra sem tóku þátt í Ljósagöngu UN Women. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fjóra mánuði hafa þær beðið eftir símtali milli vonar og ótta, en í síðustu viku bárust þeim þær fréttir að kærunefnd útlendingamála hafi vísað málinu aftur til Útlendingastofnunar sem þýðir að þeim verður ekki vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og mál þeirra verður skoðað frá upphafi hér.

Þátttaka Maryam í göngunni í ár er, að því er segir í fréttatilkynningu frá UN Women, táknræn fyrir þá hörmulegu stöðu sem milljónir flóttakvenna um allan heim búa við. 

Gangan hófst við Arnarhól, þar sem tónlistarhúsið Harpa blasti við …
Gangan hófst við Arnarhól, þar sem tónlistarhúsið Harpa blasti við í appelsínugulum lit í tilefni dagsins sem er tileinkaður kynbundnu ofbeldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert