Enginn á grillinu hjá Jóni Ársæli

Jón Ársæll Þórðarson í góðum félagsskap höggmynda eiginkonu sinnar, Steinunnar …
Jón Ársæll Þórðarson í góðum félagsskap höggmynda eiginkonu sinnar, Steinunnar Þórarinsdóttur. Árni Sæberg

„Mín nálgun er huglæg en ekki hlutlæg, eins og hjá mörgum fréttamönnum. Mér þykir vænt um viðmælendur mína – það er enginn á grillinu hjá Jóni Ársæli. Þetta er engin tilviljun; það er mín trú að öðruvísi kynnist maður ekki fólki. Og kynnist maður ekki fólkinu getur maður ekki sagt söguna eins og hún er. Þetta er ekki hin hefðbundna nálgun rannsóknarblaðamennskunnar en það er ekki þar með sagt að ég rannsaki ekki. Þvert á móti er þetta mín aðferð til að rannsaka heiminn.“

Þetta segir Jón Ársæll Þórðarson en hann snýr aftur í sjónvarp eftir áramótin með nýjan þátt í Ríkissjónvarpinu, í samstarfi við Steingrím Jón Þórðarson kvikmyndatökumann og Högna Egilsson tónlistarmann.

Beðinn að lýsa þættinum, sem hlotið hefur nafnið Paradísarheimt, velur Jón Ársæll orðin „ólíkir þættir um ólíkt efni“. „Til að gera langa sögu stutta þá mun ég tala við þá sem mig langar að tala við. Ég byrja á því að hlusta á fólk með geðraskanir en þar eru að gerast gríðarlega merkilegir hlutir. Við erum farin að tala opinskátt um geðsjúkdóma sem lengi vel var harðbannað. Segja má að þetta sé uppreisn innan frá enda hefur fólkið sjálft tekið málin í sínar hendur. Stofnuð hafa verið félög, þar sem fólk er að opna sig. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbrigði, heldur að eiga sér stað á heimsvísu.“

Jón Ársæll gengur svo langt að segja að um sé að ræða mestu breytingu í sögu geðlækninga frá upphafi. „Auðvitað unnust miklir sigrar í kringum ný geðlyf á tuttugustu öldinni en nú hefur fólkið sjálft tekið völdin. Þetta er mikil saga! Í hverri einustu fjölskyldu er fólk sem á við geðræn vandamál af einhverju tagi að stríða. Mín kenning er raunar sú að við glímum öll við slík vandamál í einhverjum mæli á lífsleiðinni.“

Næsta þáttaröð er þegar á teikniborðinu en í henni hyggst Jón Ársæll hlusta á og skoða aðstæður fanga á Íslandi. „Fangelsi eru hluti af samfélagi okkar og spurt er: Segðu mér hvernig farið er með fangana okkar og ég skal segja þér hvernig samfélagið er. Það er líka verðugt verkefni enda iðulega mikil saga á bak við það að maður er læstur bak við lás og slá. Annars tökum við eitt skref í einu í þessari þáttagerð og allur heimurinn er undir.“

Nánar er rætt við Jón Ársæl í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert