„Mun byggja á góðum grunni“

Birgitta á blaðamannafundi að loknum fundi hennar með forseta.
Birgitta á blaðamannafundi að loknum fundi hennar með forseta. mbl.is/Ófeigur

„Ég er vongóð um að okkur öllum takist að finna leið til að vinna saman.“

Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veitti henni og Pírötum umboð til stjórnarmyndunar nú síðdegis á Bessastöðum.

Á blaðamannafundi að loknum fundi hennar með forseta sagðist hún myndu byggja á mjög góðum grunni þeirra viðræðna sem átt hafa sér stað á milli flokkanna undanfarnar vikur í kjölfar kosninganna.

„Við munum nálgast þetta með það að sjónarmiði að það sitji ekki einhver einn við borðsendann.“

Gagnlegar samræður undir VG

Birgitta sagði neyðarástand ríkja í heilbrigðiskerfinu og að víða á vinnumarkaði væri staðan erfið.

„Við erum mjög samstíga og einhuga um að það þurfi að vinna mikið á milli ráðuneyta til að ná að leysa úr stórum málum og að bera þurfi meiri virðingu fyrir þinginu.“

Þá sagði hún að sér fyndist gagnlegt að hafa átt samræður við hina stjórnarandstöðuflokkanna undir forystu Vinstri grænna.

„Ég skynjaði það mjög þar, að það var ekki langt á milli okkar.“

Birgitta á Bessastöðum í dag.
Birgitta á Bessastöðum í dag. mbl.is/Ófeigur

Ekki tilkall til forsætisráðuneytis

Fyrst sagðist hún myndu ræða við þingflokk sinn, að loknum þessum fundi með forseta.

Spurð hver væri forsætisráðherraefni í komandi viðræðum sagði hún Pírata ekki endilega gera tilkall til þess ráðuneytis. Fyrst þyrfti að komast yfir „stóru hindranirnar“ áður en hægt væri að huga að ráðherraskipan.

Þá sagði hún að hún ásamt tveimur öðrum væru í raun með umboðið, en þau hefðu komið sér saman um að hún ein myndi eiga þennan fund með forsetanum.

Mikilvægt væri að fólk gæfi sér tíma til að hittast, án mikils þrýstings, til að ræða saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert