Laufabrauðslistin í heiðri höfð

Rósa Árnadóttir er lengst til vinsti og svo dæturnar Elín, …
Rósa Árnadóttir er lengst til vinsti og svo dæturnar Elín, fyrir miðju, og Snjólaug. Baksturinn markar upphaf jólaundirbúnings margra. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

„Dagurinn þegar fjölskyldan hittist til þess að skera út laufabrauð og steikja er einn skemmtilegasti dagur ársins. Ég er alin upp við þennan sið og finnst þetta ómissandi,“ segir Elín K. Sigurðardóttir á Húsavík. Fyrstu helgarnar á aðventunni er hátíð á mörgum heimilum á Norðurlandi.

Sterk hefð er fyrir því nyrðra að fjölskyldur komi þá saman til þess að útbúa laufabrauðið fyrir jólin, eins og Elín gerði á dögunum. Í þetta stúss mættu einnig Snjólaug systir Elínar og móðir þeirra, Rósa Árnadóttir, ásamt fleirum úr fjölskyldunni.

Frá kynslóð til kynslóðar

„Mamma kenndi mér laufabrauðslistina og við fylgjum jafnan uppskrift sem hún aftur fékk frá sér eldra fólki í Eyjafirði. Núna þekkja dætur mínar kúnstina og svona gengur þetta kynslóð frá kynslóð,“ segir Elín, sem er ein sjö systkina. Sú var tíðin að þau hittust öll á heimaslóð sinni að Höskuldsstöðum í Eyjafjarðarsveit og áttu þar sína laufabrauðshelgi. Eftir tveggja daga törn voru jafnvel fimm hundruð kökur í staflanum.

Svo liðu árin og aðstæður fólks breyttust. Tvær systur búa í Reykjavík og baka þar – og svo eru þær Elín og Snjólaug fyrir norðan og halda að sjálfsögðu í siðinn. Í brauðgerðinni hjá þeim hefur hver sitt fasta hlutverk; einn hnoðar deigið og fletur út en hlutverk flestra er að skreyta brauðið, en til þess eru notuð hjól eða kefli sem skilja eftir sig einföld mystur. Einn stendur svo við pottinn í lok dags og steikir kökurnar upp úr heitri feiti. Eftirtekja dagsins var 220 kökur.

Best með hangikjötinu

Laufabrauðsmenning Íslendinga á rætur sínar á Norðurlandi eystra. Í sveitunum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum var farið að baka laufabrauð til að spara mjöl því kökurnar eru örþunnar. Var því gjarnan talað um fátækrabrauð. Uppskrift að laufabrauði stendur saman af hveiti, sykri, salti, mjólk, smjöri og lyftiefni. Sínu litlu af hverju. Uppskriftin getur verið breytileg í blæbrigðum frá einum til annars. Af þessu hefur svo sprottið ýmis menning. Áratugahefð er um að til dæmis kvenfélagskonur hittist til að baka laufabrauðskökur sem eru seldar til styrktar góðum málum. Fyrst og síðast er þetta fjölskylduskemmtun; siður sem hefur breiðst út til landsins alls. Ber þá líka að taka fram að í mörgun bakaríum er líka bakað laufabrauð sem fæst í öllum betri matvöruverslunum landsins.

„Það er sjálfsagt misjafnt hvernig fólk borðar laufabrauð. Sjálfri finnst mér brauðið einna best bara með hangikjötinu – og á meðan það verður á borðum Íslendinga verður áfram bakað laufabrauð á Íslandi,“ segir Elín Sigurðardóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert