Píratar funda í dag

Birgitta Jónsdóttir, þing­flokks­formaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þing­flokks­formaður Pírata. mbl.is/Ófeigur

Píratar munu funda í dag en ekki með öðrum flokkum að sögn Birgittu Jónsdóttur, þing­flokks­formanns Pírata. Á þeim fundi verður lagður grunnur að fundi við aðra flokka sem verða annaðhvort annað kvöld eða á mánudagsmorgun. 

Í gær veitti for­seti Íslands, Guðni Th. Jó­hann­es­son, henni og Pír­öt­um umboð til stjórn­ar­mynd­un­ar. Píratar eru þriðji flokkurinn sem fær stjórnarmyndunarumboðið eftir kosningar í október. 

Frétt mbl.is: „Mun byggja á góðum grunni“

Nú er fyrirséð að fulltrúar Pírata, Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar taki upp þráðinn að nýju og reyni að mynda fimm flokka ríkisstjórn. Sagðist Birgitta í gær vera vongóð um að flokkunum „takist að finna leið til að vinna saman“ og „mik­il­vægt væri að fólk gæfi sér tíma til að hitt­ast, án mik­ils þrýst­ings, til að ræða sam­an.

Niðurstaða úr viðræðum fimm flokka kæmi á óvart, að sögn Birgis Guðmundssonar stjórnmálafræðings. Þetta sagði hann við mbl.is í gær. Ef af slíkri stjórn yrði telur hann líklegt að hún myndi lík­lega ekki starfa sam­an út heilt kjör­tíma­bil. 

Frétt mbl.is: „Kem­ur ekki á óvart“

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Árni Sæberg

Flokkur Pírata er þriðji stærsti stjórnmálaflokkur á þingi, með 14,5% í kosningunum og 10 þingmenn. Áður hafði forsetinn veitt Sjálfstæðisflokki, sem er stærsti flokkurinn á þingi, umboðið og Vinstri grænum. Hvorugum gekk að mynda ríkisstjórn. 

Þetta er í fyrsta sinn í heiminum sem flokkur Pírata fær umboð til stjórnarmyndunar. Það hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla. Meðal annars greina Independent, Telegraph og BBC frá því

Í frétt Telegraph er meðal annars spjallað við Halldóru Mogensen flokksmann Pírata sem á sæti á þingi. 

Í frétt BBC kemur einnig fram að helstu áherslumál Pírata séu meðal annars meira gagnsæi í pólitískum stjórnarháttum, gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi og að uppræta skattaskjól. Í henni er einnig greint frá því að andstæðingar Pírata telji þá skorta pólitíska reynslu og það gæti ógnað stöðugleika í íslenskum efnahag sem og styggt mögulega fjárfesta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert