Syndir oftar en hún tekur ferjuna

Séra Guðný Hallgrímsdóttir, prestur fatlaðra.
Séra Guðný Hallgrímsdóttir, prestur fatlaðra. mbl.is/RAX

Það má ábyggilega finna presta sem ganga á fjöll, hlaupa víðavangshlaup, synda í sjónum, eru með bláa beltið í karate, syngja í kór, spila á trompett og úkúlele, baka fimm sortir af smákökum fyrir jólin og hafa skrifað bók. Séra Guðný Hallgrímsdóttir, prestur fatlaðra, er samt örugglega eini presturinn sem gerir allt þetta. Alla vega eini presturinn hér á landi.

Guðný lék í fyrsta skipti í 33 ár á tónleikum með Lúðrasvetinni Svani í vikunni og nú á sunnudag syngur hún á tvennum tónleikum Söngfjelagsins í Langholtskirkju.

Hún segir kórstarfið gefa sér mikið. „Stundum kem ég alveg úrvinda á kóræfingu að kvöldi, kannski búin að vera með útför um daginn, en þegar æfingunni er lokið gæti ég farið heim og málað húsið mitt. Þetta gefur manni svo mikla orku.“

Sem prestur fatlaðra notar Guðný tónlistina mikið í sínu starfi. „Þroskahömlun fólksins sem ég vinn með er póla á milli og ég gríp oft til tónlistarinnar til að ná til þeirra. Stundum er nóg að slá strenginn til að ná athyglinni. Ég kenni bænir og tala við fólk gegnum tónlistina,“ segir Guðný sem lærði á úkúlele í þessum tilgangi. „Það er frábært hljóðfæri sem hægt er að taka með sér hvert sem er.“

Hún segir tvö tungumál í heiminum sem allir geti talað; tungumál tónlistarinnar og tungumál kærleikans. „Þú þarft ekki að kunna serbnesku til að taka utan um serbneskan mann og segja honum að þér þyki vænt um hann.“

Guðný í miðnæturgöngu á Snæfellsjökli.
Guðný í miðnæturgöngu á Snæfellsjökli.

Heilsurækt hefur alla tíð verið snar þáttur í lífi Guðnýjar; hún syndir þúsund metra á hverjum virkum morgni og gengur að jafnaði einu sinni í viku á Esjuna. Þá hefur hún gengið á flest helstu fjöll landsins.

 „Fjallganga er æðislegt sport fyrir náttúrubarn eins og mig; að ég tali nú ekki um þegar maður er með hund. Ég var lengi með dásamlega golden retriever-tík, hana Heklu mína, sem gekk með mér á Esjuna alveg fram á fjórtánda ár. Þegar hún fór fyrir þremur árum ætlaði ég aldrei að fá mér annan hund en nú er ég komin með rakka af sama kyni, Nóa. Hann lætur hafa aðeins meira fyrir sér enda að verða jafnþungur og ég.“

Hún hlær.

Guðný lítur ekki á sig sem hlaupara en tekur þó alltaf þátt í skemmtiskokkinu í Reykjavíkurmaraþoninu. „Það er meira út af stemningunni. Það er alltaf rífandi „stemmari“ í Reykjavíkurmaraþoninu. Einu sinni tók ég líka þátt í Jökulsárhlaupinu og fari ég að hlaupa meira í framtíðinni yrði það líklega í utanvegahlaupum frekar en götuhlaupum. Það er algjör heilun að fara út að ganga eða hlaupa.“

Guðný var, að eigin sögn, einn af þessum furðufuglum sem fóru að stunda sjósund á Íslandi fyrir góðum áratug. „Við vorum fimm eða sex sem byrjuðum á þessu í Nauthólsvíkinni, syntum og syntum. Sjósundið er allra meina bót og það er dásamlegt hvað fjölgunin hefur orðið mikil á síðustu árum. Það jafnast ekkert á við að vera umvafin hafinu og öllu sem í því býr.“

Guðný syndir reglulega út í Viðey og þegar hún fór þangað í haust með Söngfjelaginu, þegar kveikt var á Friðarsúlunni, áttaði hún sig á því að ár og dagur var liðinn frá því hún sigldi síðast með ferjunni.

Nánar er rætt við séra Guðnýju í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert