Var drukkinn og afar ógnandi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók á tíunda tímanum í gærkvöldi karlmann sem hafði verið að skemma bifreið í austurhluta borgarinnar. Maðurinn, sem var sjálfur skráður eigandi bifreiðarinnar, var drukkinn og afar ógnandi þegar lögreglu bar að garði.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að maðurinn hafi brugðist afar illa við þegar lögreglumenn höfðu af honum afskipti og ekkert þýddi að ræða við hann. Hann var því færður í járn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann var vistaður í fangageymslu. 

Rúmlega ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás við skemmtistað í Árbænum. Að sögn lögreglu hafði maður ráðist á tvo einstaklinga. Ekki liggur fyrir hvaða áverka þeir hlutu, en meintur árásarmaður var á staðnum og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna málsins.

Um hálftólf í gærkvöldi var tilkynnt um hávaða frá unglingapartýi í Hafnarfirði. Á vettvangi fannst lítilræði af ætluðum fíkniefnum. Lögregla lét aðstandendur vita og var málið afgreitt með vettvangsformi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert