Segir mistök verktakanna grátleg

Sjúkraflugum til og frá Neskaupstað hefur fjölgað um 20% á …
Sjúkraflugum til og frá Neskaupstað hefur fjölgað um 20% á árinu. mbl.is/Ragnar Axelsson

„Það myndast oft aðstæður þar sem ekki er hægt að fljúga [til og frá flugbrautinni í Neskaupstað] þannig að það er grátlegt þegar það gerist vegna þess að menn eru að gera eitthvað svona,“ segir Guðmundur H. Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, um flugbrautina í Neskaupstað en ekki hefur verið hægt að nota hana í um mánuð.

Flugbrautin í Neskaupstað er sem stendur ónothæf og hefur sjúkraflug til og frá Austurlandi verið bundið við flugvöllinn á Egilsstöðum undanfarnar fjórar vikur. Umdæmissjúkrahús Austurlands er í Neskaupstað og því lengir þetta ferðalög margra sjúklinga um rúmlega klukkustund, í það minnsta.

Frétt mbl.is: Geta ekki lent sjúkraflugvélum

Ekki nógu góður frágangur

Verktakar á vegum Landsnets grófu skurð þvert yfir flugbrautina til að efla flutningsgetu rafmagns frá Eskifjarðarlínunni en að sögn Guðmundar var ekki nógu vel staðið að frágangi. „Auðvitað þurfa þeir að fara í gegnum brautina og það er ekkert mál en mér skilst að frágangurinn hafi ekki verið nógu góður,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Að sögn Guðmundar var skurðurinn fylltur en fyllingin tók að síga fyrstu daga eftir að framkvæmdum lauk og því er skurðurinn enn þá þvert yfir brautina. Þá segir hann að svo virðist sem umgengni um brautina hafi einnig verið ábótavant. „Það eru för og spor [eftir bíla og tæki] úti um allt og það er erfitt að losna við þau þar sem að það hefur rignt og fryst og þiðnað. Þetta er malarbraut og hún er bara óslétt núna.“

Guðmundur telur árstímann einnig hafa haft sitt að segja en framkvæmdirnar stóðu yfir í byrjun nóvember. „Það er auðvitað tími sem er ekki auðveldur. Verktakinn gerir þetta sennilega ekki nógu vel strax og þá lendir hann í veseni vegna veðurs og getur illa gert þetta seinna.“

Sjúkraflugum fjölgar

Sjúkraflugum til og frá Neskaupstað hefur fjölgað um 20% á þessu ári og segir Guðmundur það orsakast af fjölgun sjúkrafluga almennt. Hann segir aðstæður í Neskaupstað þó oft verða til þess að flugbrautin sé ónothæf en yfir vetrartímann er dagurinn stuttur og veðuraðstæður oft slæmar.

Vonandi lagfært á næstu dögum

ISAVIA rekur flugbrautina í Norðfirði og ber því ábyrgð á að brautin sé nothæf. „ISAVIA hefði í rauninni átt að fylgjast með því að þetta væri betur gert en auðvitað á að vera hægt að treysta á verktakann að ganga betur frá.“

Guðmundur telur líklegt að flugbrautin verði lagfærð á næstu dögum, enda séu veðuraðstæður nú hliðhollar slíkum framkvæmdum. „Það var 13 stiga hiti í gærkvöldi. Þá er mjög heitur vindur eftir brautinni og þá þornar og bráðnar mjög fljótt.“

Uppfært klukkan 13.27:

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir fyrirtækið leggja mikla áherslu á að frágangur við öll sín verkefni sé í lagi. „Við höfum verið í sambandi við verktakann og það verður farið í að lagfæra völlinn strax í fyrramálið og gengið frá því sem ekki náðist vegna klaka í vellinum,“ segir Steinunn.

Hún bætir við að verkefninu ljúki núna í vikunni þegar eldri strengurinn verður frátengdur og nýr flutnignsmeiri strengur verður settur í gagnið. Hann muni auka flutningsgetu á Neskaupstaðarlínu 1 til muna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert