Slysum af völdum ölvunaraksturs fjölgar

Lögregla við umferðaeftirlit. Mynd úr safni. Mikil fjölgun hefur orðið …
Lögregla við umferðaeftirlit. Mynd úr safni. Mikil fjölgun hefur orðið á þeim fjölda umferðarslysa sem rekja má til ölvunaraksturs á fyrstu mánuðum þessa árs. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mikil fjölgun hefur orðið á þeim fjölda umferðarslysa sem rekja má til ölvunaraksturs á fyrstu átta mánuðum þessa árs. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá  Samgöngustofu, sem segir útlit fyrir að allt að þrisvar sinnum fleiri slasist sökum ölvunaraksturs í ár en í fyrra.

Allt frá árinu 2008 hefur orðið mikil fækkun umferðarslysa þar sem ölvun kemur við sögu. „Nú virðist hinsvegar eiga sér stað viðsnúningur og er hann svo mikill að óhætt er að segja að svo ör aukning hafi ekki sést áður á einu ári,“ segir í tilkynningunni.

Fjöldi slasaðra vegna ölvunaraksturs fór úr 42 árið 2005 í 117 árið 2008, sem svarar til rúmlega 40% aukningar á ári á þessum þremur árum. Á árunum 2008-2015 fækkaði slösuðum af völdum ölvunaraksturs síðan umtalsvert og fór fjöldin á þessum sjö árum úr 117 niður í 26 í fyrra, sem er það lægsta sem sést hefur frá árinu 2002. Nú horfir hinsvegar til verri vegar.

Á fyrstu átta mánuðum þessa árs hafa 52 slasast af völdum ölvunaraksturs  og „ef fram fer sem horfir stefnir í 80 slasaða vegna ölvunaraksturs árið 2016 sem þýðir að aukningin á milli áranna 2015 og 2016 verði rúm 200% sem þýðir þreföldun í fjölda þeirra sem slasast vegna ölvunar.“

Sé aldur ökumannanna skoðaður, þá kemur í ljós að flestir þeirra eru á aldrinum 17 - 21 árs. Bendir Samgöngustofa á að dregið hafi á undanförnum árum úr þeirri fræðslu og forvörnum sem hafði, ásamt öðrum þáttum, dregið úr ölvunarakstri hér á landi.

Til að spyrna við þessari þróun þurfi því að marka opinbera stefnu og langtímaáætlun um upprætingu þeirra viðhorfa sem leiða til áhættuhegðunar eins og ölvunaraksturs, sem og að efla eftirlit með ölvunarakstri.

Kort/Samgöngustofa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert