Hrinti fyrrverandi sambýliskonu á vegg

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Karlmaður var í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti fyrir að hafa hrint fyrrverandi sambýliskonu sinni á vegg með þeim afleiðingum að hún hlaut meiðsl af. Fram kemur í dómsorði að konan hafi komið á fyrrum heimili þeirra í Reykjavík til þess að sækja hluti í hennar eigu ásamt öðrum manni. Komið hafi til orðaskaks á milli hennar og fyrrverandi sambýlismannsins sem hafi endað með því að hann hafi hrint henni á vegginn.

Maðurinn segir konuna hafa ráðist inn á heimili hans ásamt hinum manninum sem hafi ráðist á sig. Konan hefði hvatt þann sem kom með henni áfram. Maðurinn hefði hrint sér á vegginn og tekið sig hálstaki og lamið í síðu og búk. Konan segist hafa smeygt sér fram hjá sambýlismanninum fyrrverandi þegar hann hafi opnað dyrnar. Þegar hún hafi snúið sér við hafi maðurinn hrint henni á vegginn. Hinn maðurinn hafi síðan gengið á milli þeirra.

Hæstiréttur bendir á að þarna sé um að ræða andstæða framburði. Hins vegar sé ljóst af læknaskýrslum að áverkar konunnar hafi verið nokkuð meiri en fyrrverandi sambýlismanns hennar en þau leituðu bæði á slysadeild eftir atburðinn. Framburður mannsins bendi ekki til þess að konan hefði lent í neinum átökum sem komi ekki heim og saman við áverka hennar. Þá hefði hann orðið tvísaga. Fyrst hafi hann sagt að hinn maðurinn hefði brotið vegginn með því að berja í gegnum hann en síðan að hann hefði hrint sér á vegginn.

Framburður konunnar var hins vegar verið trúverðugur. „Þegar til ofangreindra atriða er litið telur dómurinn óhætt að leggja trúverðugan framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu og telja hafið yfir vafa að ákærði hafi hrint brotaþola utan í vegg, sem við það hafi brotnað, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut þá áverka er í ákæru greinir,“ segir í dómnum.

Manninum var að auki gert að greiða konunni 400 þúsund krónur í miskabætur og tæpar 1,5 milljónir króna í málskostnað. Konan hafði farið fram á eina milljón króna í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert