Eitrað fyrir ketti í kringum Hellisgerði

Mynd úr safni. Grunur leikur á að eitrað hafi verið …
Mynd úr safni. Grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir köttunum með frostlegi, sem er mjög eitraður fyrir dýr og veldur þeim vítiskvölum. mbl.is/Þórður

Grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir ketti á svæðinu í kringum Hellisgerði í Hafnarfirði með frostlegi nú í vikunni. Héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis segir málið nú til skoðunar hjá Matvælastofnun (MAST) og að það verði að öllum líkindum kært til lögreglu. 

Á Facebook-síðu Dýraspítalans í Garðabæ er greint frá því í dag að undanfarna viku hafi þrír kettir komið á dýraspítalann með mjög lík einkenni. Sterkur grunur leiki á að þarna sé um frostlagareitrun að ræða, en enn sé þó beðið staðfestingar úr vefjagreiningu úr fyrsta kettinum. 

Kettirnir voru allir á svæðinu kringum Hellisgerðið í Hafnarfirði og var einn þeirra að öllum líkindum flækingsköttur, en hinir tveir voru heimiliskettir.

Frétt mbl.is: Dýrin líða vítiskvalir

Eitrað fyrir 11 köttum á nokkrum mánuðum

Konráð Konráðsson, héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis, staðfestir að MAST hafi verið tilkynnt um málið. „Málið er í vinnslu hjá okkur núna og ég geri fastlega ráð fyrir að það verði kært til lögreglu og verði sama lag haft á eins og í hinum tilfellunum sem hafa komið upp,“ segir hann.

Á síðustu mánuðum hafa að minnsta kosti fimm kettir á Suður­landi og þrír á Aust­ur­landi drep­ist að því er talið er vegna eitr­un­ar, auk þeirra þriggja sem nú óttast er að eitrað hafi verið fyrir í Hafnarfirði.

Í nokkr­um mál­anna þykir sannað að kött­un­um hafi verið byrlað eit­ur, m.a. með því að gefa þeim mat sem sprautaður var með frost­legi. Tvö tilfellanna, annað á Fljótsdalshéraði og hitt á Selfossi, áttu sér stað í október sl.  

Frétt mbl.is: Mögulega eitrað fyrir kött

Dýralæknar beðnir um að vera vakandi fyrir fleiri tilfellum

Konráð segir MAST hafa borist tilkynning um málið í morgun. „Ég sendi út póst til allra dýralækna á höfuðborgarsvæðinu eftir að tilkynnt var um málið og bað þá um að vera vakandi og tilkynna okkur, ef það kæmu upp fleiri svona tilfelli.“

Búið er að kryfja einn af köttunum og segir Konráð niðurstöður þeirrar krufningar benda til þess að um frostlagareitrun sé að ræða. „Einkennin virðast vera nokkuð ljós,“ segir hann og kveður málið vera áhyggjuefni.

„Mér skilst að hin málin sem hafa komið upp hafi verið strax kærð til lögreglu og rannsóknin er þá farin yfir til þeirra, en við aðstoðum þá að sjálfsögðu eins og við getum.“

Frétt mbl.is: Dularfullur kattardauði í Hveragerði

Verða að komast til dýralæknis innan þriggja tíma

Á Facebook-síðu Dýraspítalans í Garðabæ er bent á að frostlögur sé mjög eitraður fyrir dýr og að einkennin komi fram hálftíma til hálfum sólarhring eftir inntöku og valdi dýrinu, sem líður vítiskvalir, nýrnabilun.

Innan tveggja tíma eftir inntöku eitursins byrjar kettinum að líða mjög illa, hann slefar og verður niðurdreginn. Seinna, jafnvel næsta dag, hættir hann síðan að éta, kastar ítrekað upp og á erfitt með að anda. Kötturinn verður þá mjög máttfarinn, fær lömunareinkenni í útlimi og fellur í dá áður en hann deyr. Allt ferlið er verulega kvalarfullt og dýrið þjáist mikið.

Eigi dýr að eiga möguleika á að lifa eitrunina af þá verði það að komast til dýralæknis innan þriggja tíma frá því að eitrað er fyrir því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert