Hjóla á spinning-hjólum í sólarhring

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hóf í kvöld viðburð til styrktar Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur í samstarfi við líkamsræktarstöðina World Class. Viðburðurinn snýst um að hjóla á spinning-hjólum í 24 klukkustundir og safna þannig áheitum til styrktar nefndinni.

Viðburðurinn fer fram í húsakynnum World Class í verslunarmiðstöðinni Smáralind i Kópavogi og hófst hann klukkan 20:00. „Þetta er styrktarviðburður fyrir Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, allur ágóði rennur óskiptur til þeirra, enda full þörf á svona rétt inn í jólahátíðina,“ segir Ágúst Guðmundsson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og spinnari.

Þúsund króna aðgangseyrir er á viðburðinn og eru einkum fyrirtæki hvött til þess að leggja til hærri framlög. Ágúst segir að 150 manns hafi skráð sig til þátttöku.

Þeir sem vilja styrkja málefnið geta lagt inn á reikninginn 0515 - 04 - 250040. Kennitalan er 690500-2130.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert