Komið að ögurstund í óformlegum viðræðum

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir samtöl undanfarinna daga vissulega hafa …
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir samtöl undanfarinna daga vissulega hafa aukið á skilning milli flokkanna. Ekkert sé þó enn fast í hendi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Liggja þarf fyrir eftir helgi hvort óformlegar stjórnarmyndunarviðræður Pírata, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar verða að formlegum stjórnarmyndunarviðræðum. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is eftir fund formanna flokkanna nú síðdegis.

„Þetta var ekki langur fundur,“ sagði Katrín. „Þetta hafa allt verið mjög jákvæðir og góðir fundir, en það eru auðvitað engar tillögur komnar á borðið, nema sú tillaga sem lá fyrir eftir síðustu lotu varðandi stjórnarskrána.“

Katrín segir því enn ótímabært að segja til um hvort viðræðurnar eigi eftir að taka á sig formlegri svip.  „Öll samtöl auka auðvitað skilning á milli flokkanna og að því leytinu til eru þetta góðir fundir, en við erum ekki með neitt fast í hendi.“

Sjávarútvegsmálin rædd áfram á morgun

Flokkarnir hafa rætt efnahagsmálin, ríkisfjármálin og útgjöldin og þar með heilbrigðismálin, menntamálin og innviðina að sögn Katrínar, sem og sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.

Fulltrúar flokkanna funduðu síðan í gær til að fara betur yfir sjávarútvegsmálin. Engar tillögur liggja þó fyrir eftir þann fund að sögn Katrínar.

Sjávarútvegsmálin verða því tekin aftur til umræðu hjá fulltrúum flokkanna síðdegis á morgun. Formenn flokkanna munu síðan funda að þeim fundi loknum og loks með þingflokkum sínum annað kvöld.

Spurð hvort komið sé að ögurstundu í þessum óformlegu viðræðum segir Katrín:  „Það liggur fyrir að það þarf að ákveða hvort þessar viðræður eiga að hætta að teljast óformlegar og verða formlegar og það liggur fyrir að það þarf að gerast eftir helgi.“ Morgundagurinn verði því væntanlega lokasprettur í óformlegum viðræðum flokkanna fimm.

Nálgumst viðræðurnar út frá málefnunum

Hún telur ekki tímabært að svara því til hvort VG séu bjartsýn á að af formlegum stjórnarmyndunarviðræðum verði. „Við nálgumst þetta út frá málefnunum fyrst og fremst og því hvort við teljum að sátt sé um þessi mikilvægu mál sem við metum svo og sem við teljum að hafi kannski verið stóra málið í kosningabaráttunni  heilbrigðismálin, skólamálin og innviðina,“ segir Katrín.

„Við nálgumst viðræðurnar út frá þessum málaflokkum og munum taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til bjartsýni, þegar við erum komin með skýrari sýn á það.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert