Ók ítrekað á kyrrstæða bíla

Ökumaður, sem hafði ítrekað ekið bifreið sinni utan í kyrrstæða bíla við Langholtsveg, var færður í fangageymslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um miðnætti í gær.

Þá stöðvaði lögreglan bifreið á Bústaðavegi um kl. 3 í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur án réttinda þar sem hann hefur aldrei öðlast réttindi, sem og vörslu fíkniefna. Bifreiðin var auk þess ótryggð og skráningarmerki því klippt af henni.

Rétt fyrir kl. 4 í nótt hafði lögreglan afskipti af ökumanni leigubíls við Ægisíðu. Sá var ekki talinn hæfur til aksturs þar sem hann er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja.

 Skömmu síðar var lögreglu tilkynnt um  slagsmál á veitingahúsi við Laugaveg. Þrjú voru handtekin, grunuð um líkamsárás, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu og ofbeldi gegn lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert