Tvö hross drápust í árekstri

Tvö hross úr stóðinu drápust er ekið var á þau.
Tvö hross úr stóðinu drápust er ekið var á þau. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bifreið var ekið inn í hrossastóð á Vesturlandsvegi við Kjalarnes seint í gærkvöldi. Tvö hross drápust. Slysið átti sér stað til móts við bæinn Móa. Tveir bílar lentu í árekstrinum en þeir sem í þeim voru sluppu án meiðsla.

Slysið vildi þannig til að hrossastóð hafði hlaupið út á þjóðveginn og ók bifreið sem þar var á ferð inn í það. Önnur bifreið ók svo í kjölfarið á hina sem á undan fór. 

Lögregla og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins voru kölluð á staðinn og lokaði slökkviliðið veginum með dælubíl. Slíkt er nauðsynlegt á meðan lögreglan er að störfum á vettvangi við þessar aðstæður. Minnstu mátti muna í gær að bíll sem kom að æki á lögreglumann. 

Slæmt skyggni en fáir með endurskinsmerki

Skyggni var slæmt í gærkvöldi og er það núna víða þar sem rigningarsuddi er í lofti. Þá hefur snjórinn, sem oft glæðir skammdegið örlítilli birtu á þessum árstíma, ekki látið sjá sig.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vill brýna fyrir fólki að hafa endurskinsmerki á flíkum sínum. Slökkviliðsmenn segjast verða þess mikið varir í vetur að fólk noti ekki slík merki, jafnvel ekki skólabörn.

Þá vill slökkviliðið einnig brýna fyrir fólki að fara varlega á slysavettvangi og annars staðar þar sem lögregla er að störfum, oft með blikkandi ljós á bílum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert