120 milljarðar í jöfnun lífeyrisréttinda

Fjáraukalög voru lögð fram á Alþingi í kvöld.
Fjáraukalög voru lögð fram á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert

Ríkið mun leggja lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins til 120 milljarða til að jafna lífeyrissréttindi samkvæmt fjáraukalögum sem lögð voru fram á Alþingi í kvöld. Gert er ráð fyrir að skatttekjur ríkisins verði þrjátíu milljörðum króna meiri á næsta ári en reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis, segir að verið sé að nýta mikinn afgang ríkissjóðs á næsta ári til þess að jafna lífeyrisréttindi á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins eins og talað hafi verið um í áratugi.

Afgangurinn mikli er til kominn vegna stöðugleikaframlaga slitabúa föllnu bankanna sem koma til greiðslu á næsta ári. Mikilvægt sé að ráðast í þessa aðgerð nú vegna laga um opinber fjármál sem taka gildi um áramótin. Samkvæmt þeim eru stjórnvöld skuldbundin til að skila fjárlögum með afgangi.

„Ef við gerum þetta seinna munum við lenda í miklum vandræðum með að uppfylla skilyrðin um afgang í ríkisfjármálum sem við erum búin að skuldbinda okkur til með nýju lagaumhverfi um opinber fjármál. Það myndi þýða að við þyrftum að skera niður gríðarlega opinbera þjónustu sem ég held að sé enginn áhugi á og væri í rauninni mjög óskynsamlegt,“ segir hann.

Þá segir Guðlaugur Þór gleðilegt að sjá að skatttekjur séu meiri en áætlað hafi verið. Ástæðan sé fyrst og fremst sú að betur gangi í þjóðfélaginu en áætlað var og hagvöxtur sé meiri en gert var ráð fyrir þegar fjárlög voru samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert