Fólkið sem býr í vatninu

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Herra Chom beið eftir mér stundvíslega klukkan átta á sunnudagsmorgni fyrir utan háklassa hótelið í Siem Reap, Kambódíu. Tuk-tukinn hans var klár í slaginn og settist blaðamaður á vagninn sem mótorhjól hans dró á eftir sér. Sætið var bólstrað með ljósgrænu silki sem farið var að láta á sjá en það gerði ekkert til, morgunninn var bjartur og fagur og hitinn fullkominn. Við héldum af stað úr bænum í áttina að Tonle Sap-vatni, stærsta vatni Suðaustur-Asíu, til að berja augum þorp sem þar lúra í vatninu og fólkið sem þar býr.

Í þorpinu sem blaðamaður heimsótti, Kampong Phluk, var rólegt um …
Í þorpinu sem blaðamaður heimsótti, Kampong Phluk, var rólegt um að litast á sunnudagsmorgni og fáir túristar á ferð, sem gerði upplifunina einstaka. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Skilningarvitin glaðvakna

Hlý golan lék um andlitið þar sem við brunuðum út úr bænum en á leiðinni er ótalmargt að sjá. Þegar komið er á sveitaveg hafa skilningarvitin ekki undan að nema allt sem þar ber fyrir augu, eyru og nef. Fólk að sópa, hvítir nautgripir, ungir menn úti í skurðum með net að veiða, hálfber börn að leik og moldarrykið af veginum liggur í loftinu. Herra Chom flautar til að vara við okkur þar sem við þeysumst fram úr skólastelpum á hjólum sem veifa til okkar brosmildar og fallegar. Við eitt húsið sefur gamall afi vært í hengirúmi og haggast ekki þótt haninn gali á hlaðinu. Lyktin af steiktu kjöti berst að vitum en fólk er víða að elda í vegkantinum.
Alls staðar er líf og alls staðar er fólk eitthvað að bardúsa, allir að reyna að komast af, afla sér fjár, eiga í sig og á. Kona hengir þvott á snúru og tveir hundar fljúgast góðlátlega á í drullunni fyrir framan fátækleg híbýli. Allt þetta rennur fram hjá þessum gesti sem tekur allt inn og hugsar um líf þessa fólks og hversu ólíkt þeirra líf er okkar.

Drengirnir sem stýrðu bátnum voru ungir að aldri. Þeim tókst …
Drengirnir sem stýrðu bátnum voru ungir að aldri. Þeim tókst að sigla bátnum í strand. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Berfættir bræður

Við komum á áfangastað, að bátunum sem liggja í röðum og bíða eftir túristum dagsins. Bátarnir eru úr tré, málaðir í mörgum litum; bláu, rauðu, gulu en eru gamlir og lúnir og litirnir á þeim farnir að dofna. Þeir voru berfættir drengirnir tveir sem tóku á móti mér, skipstjórar á bátnum mínum, annar í mesta lagi tíu ára en hinn unglingur, töffari með hvít sólgleraugu. Sennilega voru þeir bræður og leyfði þessi eldri þeim yngri að stýra, eins og góðir eldri bræður gera, þegar enginn sér til.

Einmana fiskimaður stendur við bakkann með netin sín.
Einmana fiskimaður stendur við bakkann með netin sín. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Kyrrð og ró á sunnudegi

Þeir sigldu með þessa einu hvítu konu inn í þorpið þar sem allt var með kyrrum kjörum. Aðeins mátti heyra hljóðið í bátsvélinni og vindinum. Vatnið var brúnt á lit, moldarbrúnt. Ekki beinlínis vatn sem maður myndi vilja baða sig í eða drekka en annað vatn er ekki í boði fyrir þorpsbúa.
Kannski voru allir að hvíla sig innandyra á þessum sunnudagsmorgni en sjá mátti bregða fyrir einstaka mannveru í húsunum sem stóðu á staurum í vatninu. Við sigldum fram hjá einmana fiskimanni sem var að bisa við netin sín og konu með stráhatt í troðfullum bát af ávöxtum. Ég hafði heyrt að þorpin væru barmafull af túristabátum en þarna voru fáir á ferð, nema þessi eina íslenska kona og drengirnir tveir.

Það gekk ekki áfallalaust að ýta bátnum aftur á flot.
Það gekk ekki áfallalaust að ýta bátnum aftur á flot. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ein í gegnum töfraskóg

Við komum að bryggju þar sem mér var bent á að fara í „land“ en þar biðu konur og börn á litlum viðarbátum eftir að fá að sigla með ferðamenn í gegnum skóg sem óx upp úr vatninu. Karlmennirnir voru líklega allir við veiðar en fólkið lifir þarna af fiskveiðum og er vatnið víst
gjöfult. Móðir og ung dóttir sigldu með mig í gegnum þennan töfraskóg. Trén stóðu upp úr vatninu og sólin reyndi að brjóta sér leið gegnum laufið og greinarnar. Það var um stund eins og við værum einar í heiminum, þrjár mannverur að róa í gegnum skóginn og eina hljóðið sem
heyrðist var tært hljóðið í vatninu þegar árin klauf yfirborð þess og droparnir féllu af árinni aftur í glitrandi vatnið.

Kona með stráhatt siglir fram hjá með fullan bát af …
Kona með stráhatt siglir fram hjá með fullan bát af ávöxtum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Erfitt líf með níu bræður

Sú stutta hafði lært nokkra frasa í ensku og spurði mig hversu gömul ég væri, og hversu mörg systkini ég ætti. Ég spurði að því sama á móti og í ljós kom að hún var átta ára, ein af ellefu systkinum. Þær voru aðeins tvær systurnar en níu bræður. Hún setti upp mæðulegan svip þegar hún sagði mér frá sínum níu bræðrum. Líklega var það ekki auðvelt hlutskipti fyrir litla stúlku. Kannski þarf hún að passa fimm eða sex yngri bræður, hver veit.
Móðirin var í blómakjól með stráhatt. Hún talaði lítið sem ekkert en leit annað slagið við og brosti og hélt svo áfram för sinni í gegnum skóginn. Hún sleit hvít blóm af tré og rétti blaðamanni og dró svo nokkra smáfiska upp úr neti og henti þeim um borð. Þeir sprikluðu þar um stund þar til súrefnið varð þeim að aldurtila. Mamman var vel í holdum og með breiðar lendar, enda búin að koma ellefu mannverum í heiminn. Sem móðir varð mér hugsað til þess hvernig það er að passa að börnin drukkni ekki þarna í þessum fljótandi bæ.

Litla átta ára stúlkan átti tíu systkini, þar af níu …
Litla átta ára stúlkan átti tíu systkini, þar af níu bræður. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Báturinn keyrður í strand

Eftir einn ískaffi á „bryggjunni“ héldum við til baka sömu leið. Sá yngri fékk að stýra og tókst að keyra bátinn í strand á bakka einum. Það kom töluverður hnykkur og báturinn sat pikkfastur. Þeir voru hálfskömmustulegir drengirnir og hoppuðu út í vatnið og byrjuðu að ýta af öllum lífsins krafti en krafturinn var ekki ýkja mikill í þessum grannvöxnu líkömum og báturinn bifaðist varla. Það var ekki fyrr en skipstjóri sem átti leið hjá sá aumur á þeim og dró bátinn á flot að við gátum haldið förinni áfram.

Húsin standa á staurum í vatninu en vatnsyfirborðið í Tonle …
Húsin standa á staurum í vatninu en vatnsyfirborðið í Tonle Sap-vatni hækkar og lækkar eftir árstíðum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Svínin á leið á markaðinn

Herra Chom beið pollrólegur við bakkann. Það var komið að hádegi og orðið vel heitt en gott að fá vindinn í fangið í tuk-tuknum. Á heimleið keyrðum við fram hjá manni á vélhjóli sem dró vagn fullan af bleikum svínsskrokkum sem lágu nokkrir saman hlið við hlið og minntu óþægilega mikið á mannslíkama. En eftir að hafa séð steikta hunda til sölu í Víetnam og horft á konu skera hænur á háls var þetta allt ofurvenjulegt. Bara venjulegur sunnudagur í Kambódíu og svínin á leið á markaðinn.


Það er algeng sjón í Kambódíu að sjá dýraskrokka á …
Það er algeng sjón í Kambódíu að sjá dýraskrokka á vögnum og jafnvel aftan á mótorhjólum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert