Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurlandi hafa verið kallaðar út til að aðstoða fjórar rútur sem fóru út af þjóðvegi 1 við Pétursey, austan Sólheimasands, núna á tólfta tímanum. Ein þeirra valt á hliðina, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Ein rúta til viðbótar fór þá út af vegi í Öræfum.
„Björgunarsveiti Kári í Öræfum er núna að sinna rútu sem farið hefur út af við Freysnes,“ sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is á tólfta tímanum.
Ekki er vitað til þess að alvarleg slys hafi orðið á fólki. Veður hefur versnað töluvert á þessu svæði efir því sem liðið hefur á morguninn og akstursskilyrði eru slæm, hálka snjókoma og hvassviðri.
„Það eru nokkrir sem munu fara á heilsugæsluna í Vík, bara til þess að láta kíkja á sig,“ sagði Oddur.
Slysavarnafélagið Landsbjörg áréttar að ekkert ferðaveður er á svæðinu og spáð er vonsku veðri á Austur- og Norðausturlandi í dag.