Stóru málin rædd á morgun

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við héldum áfram að fara yfir málefnin. Fórum yfir stjórnarskrána, fórum yfir umhverfismálin og svo sem tæptum á öðru,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is en fundað var í dag í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þetta var annar fundurinn síðan formlegar viðræður flokkanna hófust.

Fundað verður aftur á morgun klukkan þrjú. „Þá ætlum við að fara yfir þessa málaflokka eiginlega alla, þessa meiriháttar málaflokka. Þá verður vonandi kominn einhver texti á blað sem við getum rennt yfir,“ segir Benedikt. Spurður hvort gera megi ráð fyrir meiri tíðindum á fundinum á morgun segir hann. „Ég veit það ekki en það verða allavega stór mál tekin fyrir.“

Spurður áfram hvenær hann telji að endanleg niðurstaða gæti legið fyrir í viðræðunum segir Benedikt: „Ég sá að Bjarni [Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins,] hafði verið bjartsýnn á að þetta gæti tekist í vikunni en ég er nú ekki alveg viss um það ennþá.“ Inntur eftir því hversu langan tíma viðræðurnar gætu tekið segir hann að það yrði allavega ekki á morgun.

„Menn reyna að flýta sér eins mikið og þeir geta en fara ekki of hratt,“ segir Benedikt. Spurður hvort búið sé að afgreiða til að mynda Evrópumálin segir hann ekki búið að afgreiða neinn málaflokk. „Ég hugsa að við eigum eftir að ræða öll málin að minnsta kosti eitthvað. En eins og ég hef sagt þá er sameiginlegur skilningur á mörgu og þar á meðal varðandi Evrópumálin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka