Barnið kom í tólftu tilraun

Ásthildur og Hafþór lögðu allt í sölurnar og að lokum …
Ásthildur og Hafþór lögðu allt í sölurnar og að lokum tókst þeim að eignast langþráð barn. Lilja kom í heiminn átta vikum fyrir tímann og Ásthildur var hætt komin með meðgöngueitrun. Ásdís Ásgeirsdóttir

Þau hjón, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, og Hafþór Jónsson útgerðarmaður, hafa frá mörgu að segja. Dóttir þeirra Lilja kom í heiminn í haust; barn sem þau höfðu þráð lengi og haft mikið fyrir að eignast. Mikil þrautaganga er nú að baki, en Lilja varð loksins til í tólftu glasafrjóvgun eftir fjögurra ára tilraunir. Það var ekki fyrr en þau fóru á læknamiðstöð í Grikklandi að ástæðan þess fannst að allar fyrri tilraunirnar mistókust. Fyrirstaða var í leginu sem íslenskum læknum hafði yfirsést. Eftir litla aðgerð þar ytra varð Ásthildur þunguð og gleðin var mikil. En meðgangan var ekki áfallalaus. Ásthildur fékk meðgöngueitrun á sjöunda mánuði og var hætt komin. Allt fór vel að lokum og Lilja litla kom í heiminn, agnarsmá en bæði falleg og hraust.

Tíu glasafrjóvganir á fjórum árum

Við hreiðrum um okkur í sófanum og Ásthildur byrjar á byrjuninni; á upphafinu á þessu ævintýri sem reyndist ekki laust við hindranir.  „Það eru sex ár síðan við Haffi kynnumst. Fljótlega ákváðum við að við vildum eignast börn. Haffi segir reyndar að það hafi verið ég sem ákvað það,“ segir Ásthildur og hlær. „Sko, ég er svo mikill barnakarl að það var ekkert erfitt af minni hálfu,“ segir Hafþór, en hann á einn fjórtán ára son fyrir, Daníel, sem býr að mestum hluta í Suður-Afríku hjá móður sinni. Daníel dvelur hjá Ásthildi og Hafþóri tvisvar á ári og er nú hér í jólafríi. Hann vill helst ekki fara af landi því hann sér ekki sólina fyrir litlu systur sinni.

Ásthildur segir þau hjón bæði tilheyra stórum systkinahópum og vildu að sjálfsögðu eignast fullt af börnum. Þegar ekkert bólaði á barni og tvö ár voru liðin leituðu þau sér hjálpar. „Við byrjuðum strax í glasameðferðum en fórum ekki í tæknifrjóvgun, vegna þess að við bjuggum fyrir vestan og læknarnir hjá Art Medica sögðu að það væri langárangursríkast að fara strax í glasafrjóvgun. Þannig að við byrjum í „hardcore“-glasameðferð vorið 2012.

Við höfðum verið rannsökuð og það var allt í lagi hjá Haffa og virtist vera allt í lagi hjá mér líka. Þá vorum við búin að reyna í tvö ár en ekkert gerðist. Við tókum einhverjar tíu glasameðferðir á fjögurra ára tímabili. Ég var annaðhvort í meðferð, að undirbúa meðferð eða nýbúin í meðferð í öll þessi fjögur ár. Þetta tók rosalega á, bæði líkamlega og andlega, en það vill svo til að ég er gift manni sem er skapgóður,“ segir Ásthildur og brosir til Hafþórs. „Það þarf mikla þolinmæði í svona,“ segir Hafþór og bætir við að þau þekki fullt af fólki sem hafi gefist upp eftir nokkrar meðferðir.

„En konan mín er þrjóskari en allt og ég líka. Þannig að við vorum búin að ákveða að þetta myndi ganga en þetta var ofboðslega mikið álag, og sérstaklega á Ásthildi,“ segir hann. „Ég var náttúrulega ekki húsum hæf. Þegar maður er pundaður upp af hormónum og sterum er maður aldrei í andlegu jafnvægi. Álagið er mikið og ekki bara á okkur, heldur líka á fjölskyldu, vini og vinnufélaga. Það eru mörg sambönd sem enda af því að þau bara þola þetta ekki. Maður er alveg gagú,“ segir Ásthildur hreinskilin. Starf hennar er krefjandi og Ásthildur segir það hafa verið erfitt „að halda sönsum“ í vinnu þegar álagið var mikið. Eftir hverja misheppnaða tilraun komu vonbrigði og sorg.

Ásthildur er alsæl með frumburðinn.
Ásthildur er alsæl með frumburðinn. Ásdís Ásgeirsdóttir

Maginn svartur af marblettum

Glasafrjóvgun og öll sú meðferð sem henni fylgir reynir á líkama konunnar en ekki síður á sálina. „Í lyfjameðferðinni er fyrst bæling sem er eins og að fara í tíðahvörf, svo er öllu „bústað upp“ með hormónum til að framleiða egg. Eftir það er farið í eggheimtu og uppsetningu á fósturvísum nokkrum dögum síðar. Þetta er svo ofboðslega mikið inngrip í líkamann. Sálarlega er það svo vonin um að eitthvað gerist, mitt í allri þessari hormónagjöf og svo sorgin á eftir þegar ekki tekst. Og svo aftur og aftur og aftur,“ útskýrir Hafþór.

„Og ég var að gera þetta þrisvar, fjórum sinnum á ári. Endalaus ferðalög suður í meðferðir og bið eftir niðurstöðum. Ég var með mjög skilningsríka bæjarstjórn. Við ákváðum það alveg frá upphafi að við skyldum vera mjög opinská með þetta. Líka upp á skilning samfélagsins og stuðning í kringum okkur,“ segir Ásthildur og segir að hún hafi viljað að fólk vissi af hverju þau voru svona mikið í burtu. Það hafi ekki verið til að leika sér. „Við vorum að reyna að eignast barn, og þetta þurfti til.“

Eftir hverja glasafrjóvgun tekur við tveggja vikna bið. Þá skýrist hvort tilraunin hafi tekist eða mistekist. „Þá er þessi ofboðslega mikla von og bjartsýni. Og ég er svo bjartsýn að eðlisfari að ég hef alltaf trúað því að þetta verði í lagi. Svo er maður á óhemjumagni af hormónum og sterum til að hafna ekki fósturvísunum og blóðþynnandi lyfjum. Maginn af mér var svartur af marblettum eftir sprauturnar lengi á eftir,“ segir Ásthildur. „Ég sprautaði hana á hverjum einasta degi í gegnum meðferðirnar,“ segir Hafþór.

Læknirinn sagði við mig að líklegast væri ég orðin of gömul og eggin léleg, en ég var 38 ára að byrja að reyna að eignast barn. Ég trúði því ekki. Mamma var 44 ára þegar hún átti barn. Ég var alltaf að spyrja en við fengum aldrei nein svör. Svo síðasta árið, 2015, þegar við erum að reyna hérna heima, er ég algerlega á síðustu metrunum andlega. Og við bæði orðin úrkula vonar að þetta gangi. Þetta voru orðnar allt of margar meðferðir,“ segir Ásthildur.

Lilja Hafþórsdóttir braggast vel og hefur nú tvöfaldað þyngd sína …
Lilja Hafþórsdóttir braggast vel og hefur nú tvöfaldað þyngd sína frá fæðingu. Ásdís Ásgeirsdóttir

Færibandavinna hjá Art Medica

„Við vorum með gagnrýnar og áleitnar spurningar við þá í Art Medica. Við vorum búin að lesa okkur mikið til og vorum ekki sátt en treystum alltaf læknunum að þeir vissu best. En eftir að fósturvísar sem við áttum eyðilögðust hjá þeim misstum við allt traust til þeirra endanlega,“ segir Hafþór.

„Við vorum mjög ósátt við þessa færibandavinnu sem átti sér stað þarna. Eftir á að hyggja áttum við að ýta eftir því að ég yrði rannsökuð betur en ég treysti lækninum sem ég hafði verið lengi hjá og taldi að þeir vissu hvað væri best að gera,“ segir Ásthildur.
„Í gegnum allt ferlið sagði læknirinn okkar að það væri allt í lagi með hana nema aldur, þetta væri líklega óútskýrð ófrjósemi,“ segir Hafþór.

„Galdrakonur“ í Grikklandi

Það var svo fyrir tilviljun að Hafþór frétti af læknastofu í Grikklandi þegar hann var í Hong Kong í heimsókn hjá vinum sínum. „Hulda Þórey Garðarsdóttir, kona vinar míns, er ljósmóðir. Hún fer að segja mér frá konu sem var að fara að fæða en Hulda átti að taka á móti öðru barni hennar. Hún hafði farið til „galdrakonunnar“ Pennyjar í Grikklandi og bendir okkur á Serum-læknastöðina í Aþenu,“ segir Hafþór. „Hulda Þórey og svilkona hennar, Kristrún Lind Birgisdóttir, eru örlagavaldar í okkar lífi. Í fyrsta lagi kynntu þær okkur tvö og í öðru lagi kynntu þau okkur þetta fyrirtæki,“ segir Ásthildur.

Á þessum tímapunkti höfðu hjónin engu að tapa og vonin kviknaði á ný. Þau settu sig í samband við fyrirtækið og flugu til Aþenu stuttu seinna. Ásthildur var drifin í allsherjarskoðun.
„Hálftíma eftir að við vorum komin þar inn var sagt: „Nei, þetta leg getur aldrei haldið barni“,“ segir Hafþór að hafi verið sagt. „Það kom í ljós að ég var með örvef og bandvefsæxli inni í leginu, legið var fullt af dauðum vef sem þurfti að fjarlægja,“ útskýrir Ásthildur. „Læknarnir á Serum sem skoðuðu mig sögðu, „við lögum þetta bara strax“.“
„Þetta gekk svo fljótt fyrir sig að við komum þarna inn eftir hádegi og það var pantaður tími í aðgerð morguninn eftir,“ segir Hafþór.

Hvernig stendur á því að þú ert búin að fara í tíu glasafrjóvganir hér heima og enginn búinn að skoða almennilega í þér legið? 

„Það er bara stórkostlega skrítið. Ég spurði þá að þessu á sínum tíma og það var sagt að það væri ekkert að leginu í mér. Það eina sem var búið að gera var sónar og að fjarlægja eina skollans blöðru af eggjaleiðaranum mínum,“ segir Ásthildur.

„Í Grikklandi fór ég síðan í legspeglun sem var gerð í svæfingu. Þetta var gert á fínum grískum einkaspítala,“ segir hún.  „Við vorum komin út sólarhring eftir að við fórum fyrst þarna inn,“ segir Hafþór. Eftir það fóru þau heim til Íslands og biðu eftir að geta farið aftur út. Þau voru að vonum ánægð að nú væri búið að laga það sem hugsanlega skýrði barnleysið en tilfinningarnar voru blendnar. „Ég var bæði glaður og reiður. Glaður að það væri von en brjálaður að þeir í Art Medica hefðu ekki séð þetta og ekki rannsakað Ásthildi nægilega mikið. En þegar við erum búin þarna úti er Art Medica hætt og skýringa því illa hægt að leita,“ segir Hafþór. 

Fjölskyldan saman komin, Hafþór, sonur hans Daníel, Lilja og Ásthildur.
Fjölskyldan saman komin, Hafþór, sonur hans Daníel, Lilja og Ásthildur. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hættu að væla, þetta er fyrir lífstíð! 

Mánuði síðar voru þau mætt aftur til Grikklands, nú í uppsetningu. „Eggheimtan var búin og frjóvgun og uppsetningin eftir. Þetta var ellefta skiptið okkar og í fyrsta sinn sem við sáum hækkun á þungunarhormónum (HCG),“ segir hann. „En þó ekki nógu mikið til að halda áfram. En þá sagði hún Penny, eigandi Serum, „Flott, þá vitum við alla vega að þú getur orðið ólétt“.“
Þau segjast hreinlega hafa verið tilbúin að prófa allt og hafna engum nýjum hugmyndum.

„Við flugum svo aftur út í mars, á boðunardegi Maríu meyjar. Ég er mjög trúuð manneskja og fannst þetta allt mjög táknrænt. Uppsetning á fósturvísum var síðan gerð á afmælisdegi mömmu hans Haffa. Ég sagði við hann, ef þetta verður stelpa á hún að heita Lilja, í höfuðið á henni.“

„Í kjölfar uppsetningar á fósturvísunum mælti Penny með þvi að ég fengi hormóna, stera og blóðvökva (LIT-meðferð) frá Haffa. Allt gert til þess að líkaminn myndi ekki hafna fósturvísinum. LIT-meðferð er mjög umdeild innan læknisfræðinnar og er hvorki leyfð hér né t.d. í Bandaríkjunum en hefur verið leyfð í Bretlandi,“ útskýrir Ásthildur.

„Ég fékk engar aukaverkanir og við höfðum engu að tapa, ég var tilbúin að gera allt. Þarna fékk ég öll lyf og allt sem hægt var mögulega að gera. En á þessum tímapunkti var ég eiginlega búin að missa alla von. Þegar ég ligg á bekknum og er að jafna mig eftir uppsetninguna segir Haffi við Penny, „þetta verður í síðasta skipti sem hún reynir. Við erum ekki tilbúin til að reyna aftur“. Þá segir Penny við mig, „nei, þú ert ekki að hætta. Þú hættir þessu ekki, þetta er fyrir lífstíð. Og þetta er svo lítið og léttvægt í lífsbaráttunni að reyna að eignast barn“.

Í rauninni sagði hún mér að hætta þessu væli. „Hættu að væla! Þú getur orðið ófrísk og ég legg hús mitt að veði að þú eignist barn. Og þú munt eignast barn á þessu ári, ég lofa þér því!“ Og hún sat hjá mér í klukkutíma og taldi í mig kjark. Því ég var búin að missa kjarkinn og ég var búin að missa trúna.“

Hjónin fóru í þrjár ferðir til Grikklands og aðeins þremur …
Hjónin fóru í þrjár ferðir til Grikklands og aðeins þremur mánuðum frá fyrstu heimsókninni var Ásthildur barnshafandi.

„Vissi strax að ég væri ófrísk“

En samt hlýtur að hafa verið einhver lítil von hjá ykkur fyrst þið voruð þarna?

„Já, já, og það er líka þrjóskan. Í okkur báðum. Og þvermóðskan. Fólk hélt að við værum klikkuð. Hvað ætla þau að vera lengi að reyna? Foreldrar mínir og systkini stóðu auðvitað við bakið á okkur en hugsuðu auðvitað, hvað ætla þau eiginlega að leggja mikið á sig til að koma barni í heiminn? Og við vorum tilbúin til að leggja allt í sölurnar. Við vorum búin að skoða ættleiðingu og möguleikann á að fá staðgöngumóður.“

Í þessari þriðju ferð til Grikklands, þegar Ásthildur fékk blóðvökvann úr Haffa, auk annarra lyfja og hormóna, gerðist loks kraftaverkið. Þau fóru heim með vonina eina í farteskinu en í þetta sinn leið Ásthildi öðruvísi en áður. „Ég vissi það að ég væri ófrísk. Ég bara vissi það. Ég fann það á mér.“

Fannstu það líkamlega?

„Nei, ég fann það bara andlega. Ég labbaði út í búð fimm dögum eftir að ég kom heim og keypti óléttupróf og það kom jákvætt. Rúmum hálfum mánuði seinna var það svo staðfest.“

Hvernig var tilfinningin?

„Tilfinningin var sú að ég þorði ekki að gleðjast. Ég var rosalega hrædd. Og fyrstu þrjá mánuðina var ég enn á lyfjum og ég var alltaf hrædd um að þetta myndi ekki ganga. Fyrstu þrjá mánuðina leið mér ekkert illa, ég var náttúrulega snarvitlaus af steraáti og kolrugluð,“ segir hún og skellihlær.

Ásthildur fékk meðgöngueitrun og lá þrjá sólarhringa á gjörgæslu.
Ásthildur fékk meðgöngueitrun og lá þrjá sólarhringa á gjörgæslu.

Ofboðslega vond hugmynd

Það sem átti síðan eftir að gerast í aðdraganda fæðingar litlu dömunnar var ekki hægt að sjá fyrir, frekar en annað í lífinu. Ásthildi leið ágætlega á meðgöngu sem fyrr segir og ákvað í lok ágúst að fara til Svíþjóðar, en þá voru enn tæpir þrír mánuðir í fæðinguna. „Ég var að fara á námskeið hjá sveitarstjórnarmönnum í viku, þaðan á vinabæjarmót í Noregi og þaðan til Þrándheims að skoða fiskeldisbæi. Þetta var samtals hálfsmánaðar ferðalag en þarna er ég gengin sex mánuði rúma. Eftir á að hyggja var þetta alveg ofsalega vond hugmynd. En ég fékk grænt ljós frá lækni og ljósmóður,“ segir Ásthildur, en ekki voru allir sáttir.

„Mömmu fannst þetta ekki skynsamlegt og vinkona mín, hún Ólöf Nordal, var ekki sátt við þetta. Hún hótaði að taka af mér vegabréfið. Þeim fannst þetta vond hugmynd og öllum öðrum nema mér. Þær voru ofboðslega ósáttar við þetta. En þvermóðskan í mér var mikil, og mér leið svo vel að ég upplifði að ég gæti allt. „Ofurkonusyndrómið“. Ég ætlaði ekki að láta óléttu stoppa mig. Þannig að ég fór út og þurfti fljótlega að fara á sýklalyf vegna blöðrubólgu. Og þegar ég var komin til Noregs var ég ofboðslega þreytt.

Ég hringdi í Haffa og bað hann um að koma. Í staðinn fyrir að koma heim bað ég hann að koma út, sem hann gerði. Svo kom ég heim úr ferðinni og hélt fram að vinna og var með fyrirvaraverki, ofboðslega þreytt og leið bara ömurlega illa. Ég fór suður í skoðun og þar setur ljósmóðirin mér stólinn fyrir dyrnar. Segir mér að hætta að vinna. Að þetta sé ekki gott, ég sé orðin allt of þreytt,“ útskýrir Ásthildur.

 „Þá gerist það að tengdamamma deyr. Ég fer aftur vestur til að vera hjá Haffa og mæti auðvitað í vinnuna. Ég ætlaði ekki að hætta að vinna, það var svo margt sem ég átti eftir að gera, forseti Íslands var að koma í heimsókn og eftir var fjárhagsáætlunargerð og margt að undirbúa áður en ég færi í fæðingarorlof. Svo að morgni 29. september vakna ég með gríðarlegan hausverk,“ segir Ásthildur, sem hafði varla fest svefn um nóttina fyrir höfuðkvölum. „Ég var komin með óskaplega mikinn bjúg,“ segir hún og taldi Hafþór að hún væri komin með meðgöngueitrun; hann þekkti einkennin.

Lilja fæddist 5. október 2016, átta vikum fyrir tímann, aðeins …
Lilja fæddist 5. október 2016, átta vikum fyrir tímann, aðeins 7 merkur og 42 sentimetrar.

Jarðarför og innlögn sama daginn

„Mamma hafði fengið meðgöngueitrun þrisvar sinnum þannig að við vissum að það var ákveðin hætta á því að ég fengi eitrunina líka því þetta er ættgengt. Ég tikkaði í öll boxin; aldur, glasafrjóvgun og ættarsaga. Bjúgurinn lagðist eins og hella yfir mig. Ég var byrjuð að þyngjast mjög mikið; það var bara bjúgurinn. Við mældum blóðþrýstinginn og hann var orðinn nokkuð hár og hafði hækkað töluvert og við vissum að það var eitthvað að gerast,“ segir Ásthildur.
Þennan sama dag var móðir Hafþórs jörðuð.  

„Ég spyr Ásthildi hvort hún treysti sér í jarðarförina og hún segist gera það,“ segir hann. „Svo komu mamma, pabbi og Elínborg systir mín til að fara í jarðarförina og sögðu við mig, „jæja, þú kemur með okkur suður, þú þarft að leggjast inn á meðgöngudeildina“. Grunur þeirra var staðfestur af frænda Haffa sem er læknir og konu hans sem er hjúkrunarfræðingur, en þau komu í heimsókn fyrir jarðarförina. Mér fannst þetta allt hin mesta firra,“ segir Ásthildur, sem hlýddi þeim samt sem áður. „Ég var lögð inn um nóttina og fékk ekkert að fara aftur út,“segir hún. „En háþrýstingur er einungis læknaður með leiðindum og mér var skipað að liggja fyrir á meðgöngudeildinni!“

Á öðru hundraði frá Patreksfirði

Ásthildur fékk sterasprautur til að örva lungnaþroska barnsins og þau hjónin fengu að skoða vökudeildina. Hún segist samt ekki hafa verið tilbúin að horfast í augu við það að hún væri að fara að eignast barnið, en ljóst var þarna að Lilja myndi fæðast innan hálfs mánaðar, töluvert fyrir tímann. Læknarnir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að halda blóðþrýstingi niðri og fresta fæðingu eins lengi og unnt var. Allt virtist með kyrrum kjörum og útlit fyrir nokkurra vikna spítalalegu. Í samráði við lækna ákvað Hafþór að fara vestur í nokkra daga vegna vinnu.

Daginn eftir, 5. október, hringdi Ásthildur í hann og sagði að það drægi til tíðinda og væri jafnvel von á barninu fyrr en haldið var. „Ég pakkaði niður í tösku til að verða klár,“ segir Hafþór, sem hafði ekki áhyggjur enda einungis 3½ tíma í burtu. Hann hugðist leggja af stað í bæinn um kvöldið. Þá fékk hann símtal þar sem honum var tjáð að það ætti að taka barnið með keisara þetta sama kvöld klukkan níu. „Ég henti öllu frá mér og brunaði suður,“ segir hann.
„Þetta er dauðans alvara. Mér hrakaði með hverri mínútu,“ segir Ásthildur, sem man gloppótt eftir þessu öllu saman.

„Ég var þarna á eins miklum hraða og bíll og vegir leyfðu frá Patreksfirði á þessum tímapunkti,“ segir Hafþór. Stuttu síðar varð ljóst að hann myndi ekki ná í bæinn í tæka tíð. Þegar Hafþór var kominn rétt fram hjá Búðardal fékk hann símtal frá konu sinni, sem talaði með drafandi röddu. „Haffi minn, til hamingju með dóttur þína. Lilja litla er á leiðinni upp á vökudeild og ég upp á gjörgæslu. Til hamingju, elskan mín.“ Ég fór bara út í kant og grét,“ segir Hafþór.

Viðtalið í heild sinni birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 





Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert