Áminning Gunnars Inga ekki í samræmi við lög

Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir heilsugæslunnar í Árbæ, skoðar einn skjólstæðing …
Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir heilsugæslunnar í Árbæ, skoðar einn skjólstæðing sinn. Hann kvartaði til umboðsmaður Alþingis vegna áminningar sem forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu veitti honum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Áminning sem Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH), veitti Gunnari Inga Gunnarssyni, yfirlækni á heilsugæslunni í Árbæ, í tengslum við verkfall móttökuritara árið  2015 var ekki í samræmi við lög. Þetta kemur fram í áliti Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, sem birt var á vef embættisins skömmu fyrir áramót. Mælist umboðsmaður þar til að HH taki mál Gunnars Inga upp að nýju.

For­saga máls­ins er sú að Gunn­ar Ingi hvatti starfsfólk sitt til að styðja móttökuritara í verkfalli stéttarfélags þeirra SFR, í október 2015. Þegar verk­fall SFR hófst lágu fyr­ir tvenns kon­ar fyr­ir­mæli fyr­ir mót­töku­rit­ara á heilsu­gæslu­stöðinni í Árbæ sem mátti vinna í verk­fall­inu. Önnur voru frá stétt­ar­fé­lag­inu en hin frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Tölu­verður mun­ur var á fyr­ir­mæl­un­um, en sá helsti var að HH taldi að taka mætti á móti fólki sem hefði skráð tíma áður en verk­fall SFR skall á, en stétt­ar­fé­lagið sagði að rit­ar­inn ætti aðeins að taka á móti fólki í neyðar­til­fell­um.

Frétt mbl.is: Heilsugæslan fari offari

Í samtali við mbl.is á sínum tíma sagði Gunn­ar Ingi að hann hafi hann lagt það í hend­ur rit­ar­ans að ákveða hvor­um til­mæl­un­um hann færi eft­ir. Rit­ar­inn hafi ákveðið að hlíta til­mæl­um stétt­ar­fé­lags síns. Áður hafði Gunn­ar Ingi ritað starfs­mönn­um stöðvar­inn­ar bréf þar sem hann hvatti þá til að virða verk­falls­rétt­inn líkt og þegar lækn­ar og hjúkr­un­ar­fræðing­ar voru í verk­falli.

Yrði rekinn eða áminntur skriflega

Í kjöl­farið barst yf­ir­lækn­in­um fjög­urra blaðsíðna bréf frá heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins þar sem gerð var at­huga­semd við að hann fylgdi ekki fyr­ir­mæl­um henn­ar. Var hon­um gef­inn frest­ur fram á næsta dag til að skila inn and­mæl­um og sagt að eftir að þau bærust yrði tekin afstaða til þess hvort hann yrði áminnt­ur skrif­lega, rek­inn úr starfi með upp­sagn­ar­fresti eða rek­inn úr starfi án upp­sagn­ar­frests.

Gunnar Ingi kvartaði yfir málsmeðferðinni til umboðsmanns Alþingi.

Í áliti umboðsmanns kemur fram að Gunnari Inga hafi verið veitt áminning fyrir þrjú atvik í tengslum við verkfall SFR. Fyrir tvo tölvupósta sem hann sendi á starfsfólk stöðvarinnar, fyrir að mæta ekki á boðaðan fund yfirlækna og fyrir að fylgja ekki fyrirmælum yfirstjórnar HH um hvaða þjónustu skyldi veita í verkfallinu.

Í einum tölvupóstanna velti Gunnar Ingi því upp hvort læknar ættu að sýna móttökuriturum samstöðu með einhverri útgáfu af „samúðarverkfalli.“ Þessi orð hans voru að mati Svanhvítar óhlýðni við löglegt boð, óviðeigandi og óhæfileg afskipti af vinnustöðvunum. Í áliti umboðsmanns segir hins vegar að í tölvupóstunum hafi Gunnar Ingi verið að koma á framfæri persónulegum skoðunum sínum annars vegar um hvernig hann teldi að haga þyrfti starfsemi heilsugæslustöðvarinnar í ljósi þess ágreinings sem var í málinu á milli yfirstjórnar HH og stéttarfélags móttökuritara um framkvæmd verkfallsins og hins vegar um möguleg viðbrögð lækna innan HH í tilefni af boðuðu verkfalli.

Segir í álitinu að taka verði mið af því að áminning vegna tjáningar geti haft letjandi áhrif á að opinberir starfsmenn tjái sig almennt.

Ekki rannsakað nægjanlega vel

Þá hafi afboðun Gunnars Inga á boðaðan fund yfirlækna Heilsugæslunnar hvorki verið vanræksla né óhlýðni við löglega boðun yfirmanna líkt og haldið var fram þegar áminningin var veitt. Gunnar Ingi hafi afboðað komu sína með sólarhringsfyrirvara og stjórnin hafi því haft svigrúm til að bregðast við afboðuninni, en enginn slík viðbrögð hafi borist.  

Í afboðun sinni á fundinn sagði Gunnar Ingi í tölvupósti: „Ég treysti mér engan veginn til að vera utan heilsugæslu Árbæjar ef verkfall ritara skellur á um miðnætti. Mér þætti óviðeigandi með öllu, að sitja á tjattfundi á meðan verkfall væri að skerða þjónustu okkar. Ég vona því að hugsanleg fjarvera mín njóti skilnings.“

Í áliti sínu segist umboðsmaður telja að HH hafi ekki rannsakað þriðja atvikið nægjanlega vel til að geta veitt yfirlækninum áminningu.

21 starfsmaður heilsugæslu Árbæjar undirrituðu bréf sem sent var forstjóra Heilsugæslunnar þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við Gunnar Inga „varðandi ákvarðanir hans í sambandi við skipulag vinnu starfsmanna við stöðina í verkfalli læknaritara stöðvarinnar“. Segir umboðsmaður í áliti sínu að ekki verði séð að reynt hafi verið að afla upplýsinga um þær ákvarðanir sem þarna er vísað til, t.d. með því að ræða við aðra starfsmenn heilsugæslustöðvarinnar um þær og hvernig skipulagi starfseminnar var háttað umrædda daga. Á meðan að ekki hafi verið bætt úr þessum annmarka, sé að sínu mati ekki tilefni til að taka afstöðu til þess hvort áminning vegna þess liðar hafi verið í samræmi við lög.

Leitað var viðbragða hjá forstjóra Heilsugæslunnar, sem kýs að tjá sig ekki um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert