Má ekki rukka fyrir svör um gildandi skipulag

Ráðhús Reykjavíkur. Reykjavíkurborg er ekki heimilt að rukka fyrir svör …
Ráðhús Reykjavíkur. Reykjavíkurborg er ekki heimilt að rukka fyrir svör við fyrirspurn um túlkun á gildandi deiliskipulagi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Reykjavíkurborg var ekki heimilt að rukka fyrir svör við fyrirspurn um túlkun á gildandi deiliskipulagi. Þetta segir í áliti umboðsmanns Alþingis við kvörtun einstaklings sem leitaði til hans eftir að hafa verið rukkaður um 10.500 kr. fyrir svör sem lutu að túlkun á gildandi deiliskipulagi borgarinnar.

Samkvæmt orðalagi gjaldskrár borgarinnar og þeim gjaldtökuheimildum í skipulagslögum sem gjaldskráin byggi á, þá er gjaldtaka heimil vegna þeirra erinda sem lúta að breytingum á gildandi skipulagsáætlun, eða vegna gerð nýrrar skipulagsáætlunar.

Það er hins vegar mat umboðsmanns að gjaldtökuheimildin nái ekki til þeirra erinda sem lúti að gildandi skipulagsáætlun, nema um sé að ræða beiðni um að sveitarfélagið geri breytingar á henni, eða geri nýja áætlun og svo hafi ekki verið í þessu tilfelli.

Var þeim tilmælum því beint til borgarinnar að endurgreiða gjaldið og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert