Úr háskólaverkefni í starf hjá Mercedes og BMW

Hönnun bílsins sem verður sendur á keppnina í sumar var …
Hönnun bílsins sem verður sendur á keppnina í sumar var frumsýnd í dag. mbl.is/Golli

Hönnun nýjasta kappakstursbíls Team Sparks frá verkfræðinemum í Háskóla Íslands var frumsýnd í dag en bíllinn tekur þátt í stærstu verkfræðinemakeppni í heimi, Formula Student, á Silverstone-leikvanginum í Bretlandi í sumar.

Liðsmenn sýna áhugasömum hönnun bílsins. Hönnunin byggir m.a. á að …
Liðsmenn sýna áhugasömum hönnun bílsins. Hönnunin byggir m.a. á að þróa og betrumbæta vængi bílsins síðan í fyrra. mbl.is/Golli

„Keppnin er tvískipt. Annars vegar er þetta kynningin og verkfræðileg hugsun og hins vegar Expo-hlutinn sem skiptist í hraða, drægni auk þess sem bílnum er ekið í áttu,“ segir Auður Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Team Spark. Nú þegar hönnun bílsins er lokið tekur næsti fasi við, að hefja framleiðsluna.

Bíllinn var sýndur í VR-III-byggingu Háskóla Íslands og var margt um manninn þegar ljósmyndari mbl.is leit við og segir Auður að vel hafi verið mætt í dag og fólk hafi verið á öllum aldri.

Hraðskreiðir bílar heilla unga sem aldna.
Hraðskreiðir bílar heilla unga sem aldna. mbl.is/Golli



Nýtt teymi tekur við Team Spark við upphaf hverrar haustannar. Auður segir alltaf nokkra úr „gamla“ teyminu verða eftir þannig að dýrmæt þekking tapist ekki. „Við erum alltaf að reyna að bæta bílinn,“ segir Auður. „Síðasta sumar vorum við með vængi á bílnum okkar, við erum að reyna að halda þeirri þróun áfram,“ segir hún en vængir TS-15 vöktu vægast sagt athygli, m.a. hjá fyrr­ver­andi loft­flæðis­sér­fræðingi Formúlu 1-liðs Ferr­ari.

Frétt mbl.is: Væng­irn­ir fanga at­hygli sér­fróðra

Í dag gátu gestir skoðað alla bíla Team Spark frá árinu 2011 auk bílsins sem sendur verður út á keppnina í sumar en framleiddir hafa verið fimm bílar frá 2011. Teymið hefur frá upphafi verið skipað einungis verkfræðinemum en í ár var brugðið frá þeim vana og viðskiptafræðinemi tekinn inn í markaðsteymi liðsins.

Spurð hvort verkfræðingarnir hafi staðið sig svo illa í markaðsmálum á síðasta ári að leita hafi þurft í aðra deild innan háskólans skellir Auður upp úr og segir svo alls ekki vera. „Þvert á móti var ótrúlega vel að markaðsmálum staðið í fyrra. Við vildum bara halda áfram að gera vel, og gera enn betur. Svo er alltaf gaman að fá önnur augu og aðra sýn á verkefnið,“ segir hún. Alls telur teymið sem myndar Team Spark um 40 manns. 

Öryggið á oddinn. Meira að segja þegar bíllinn er stopp.
Öryggið á oddinn. Meira að segja þegar bíllinn er stopp. mbl.is/Golli

Auður segir verkefnið sannarlega vera frábæran vettvang og góðan stökkpall fyrir þá sem hafa hug á að hanna og smíða bíla framtíðarinnar, en t.a.m. hefur Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, sem var liðsstjóri árið 2014, starfað fyrir þekkta bílaframleiðendur í Þýskalandi, m.a. Mercedes og BMW.

Liðsmenn Team Spark fara yfir hönnunina með gestum og gangandi.
Liðsmenn Team Spark fara yfir hönnunina með gestum og gangandi. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert